Magdeburg vann stórsigur

Kiel, Hamborg og Magdeburg áttu ekki í vandræðum með að leggja andstæðinga sína að velli í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gærkvöld. Lemgo, Kiel, Gummersbach og Kronau/Östringen eru efst og jöfn með sex stig eftir þrjá leiki en Magdeburg hefur fimm stig eftir en hefur leikið einum leik meira en hin liðin.

Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í Magdeburg unnu stórsigur á Concordia í grannaslag, 36:24, eftir að hafa verið 20:12 yfir í leikhléi. Arnór Atlason skoraði eitt af mörkum Magdeburg en Sigfús Sigurðsson var ekki á markalistanum fyrir lið Magdeburg. Renato Vugrinec var markahæstur í liði Magdeburg með 8 mörk og Pólverjinn Tkakzyk var með 7.

Kiel hafði betur gegn Minden, 38:27, eftir að hafa haft fjögurra marka forystu í hálfleik, 18:14.

Snorri með fimm mörk
Snorri Steinn Guðjónsson skoraði fimm mörk fyrir Minden, þar af tvö úr vítaköstum. Hjá Kiel var Svíinn Henrik Lundström atkvæðamestur með 8 mörk.

Hamborg tók Düsseldorf í bakaríið og vann stórsigur, 41:24 en staðan í leikhléi var, 21:10. Markús Máni Michaelsson skoraði eitt mark fyrir Düsseldorf en Torsten Jansen var markahæstur hjá Hamborg með tíu mörk.

*Flautað var til leiks í dönsku úrvalsdeildinni. Íslendingaliðin Skjern og Århus GF áttust við og hafði Skjern, sem Aron Kristjánsson þjálfar, betur í hörkuleik, 30:29. Vignir Svavarsson skoraði þrjú mörk fyrir Skjern, Jón Þorbjörn Jóhannsson skoraði eitt en Vilhjálmur Halldórsson komst ekki á blað frekar en Sturla Ásgeirsson í liði Århus.

Fannar Þorbjörnsson og félagar hans í Fredericia höfðu betur á móti Tvis/Holstebro, 28:25. Fannar var ekki á meðal markaskorara en hann fékk að líta rauða spjaldið vegna þriggja brottvísana.

Gísli Kristjánsson og Hannes Jón Jónsson skoruðu tvö mörk hver fyrir Ajax sem tapaði á heimavelli fyrir Svendborg, 29:26.
www.mbl.is