Það er ekki oft sem landsliðsþjálfari er ósáttur við níu marka sigur gegn þokkalegum mótherjum en Viggó Sigurðsson gat svosem leyft sér það eftir sigurinn í kvöld. “Þetta hefði getað verið stærri sigur, við spiluðum alls ekki nógu vel. Við vorum að gera of mikið að tæknimistökum og fáum á okkur ódýr mörk líka. Fyrirfram hefði maður verið mjög sáttur við níu mörk en svona þegar á heildina er litið hefði það getað verið meira.” Það vakti athygli fréttaritara sport.is að Snorri Steinn Guðjónsson, hinn eitursnjalli leikstjórnandi landsliðsins, var hvíldur mest allann leikinn. “Ég var alltaf að fara að setja hann inná en Dagur var að skora um leið svo ég beið og svo var Dagur að spila mjög vel svo ég var ekkert að breyta því.” Viggó taldi það líklegt að ákveðin þreyta hafi verið til staðar hjá strákunum eftir strembna leiki við Svía. “Það getur vel verið, miðað við alla þessa tæknifeila sem þeir voru að gera þá kannski hugleiðir maður það hvort þeir hafi verið svolítið þreyttir.” Þrátt fyrir góðan sigur á heimavelli er dæmið langt frá því að vera klárað. Viggó veit af því og verður tekið hart á því á æfingum í vikunni að leysa þau vandamál sem upp komu í leiknum í kvöld. “Það er fullt af hlutum sem við þurfum að laga en með réttu hugarfari og þetta í veganesti þá eigum við að klára þetta.” Viggó hefur því nóg að gera næstu vikuna og óskum við honum og landsliðinu góðs gengis gegn því hvít-rússneska að viku liðinni.