Stefnir ekki á 400 leiki
Birkir Ívar Guðmundsson stóð í markinu allan leikinn eftir að Guðmundi Hrafnkelssyni var skipt útaf. Birkir býst þó ekki við því að ná að slá met Guðmundar. “Ég stefni ekki á 400 leiki. Ég held ég verði ekki 43 ára í sportinu.” Varðandi leikinn fannst honum íslenska liðið einfaldlega vera að spila það vel að þeir hefðu átt sigurinn skilið. “Mér fannst við vera betri aðilinn allan tímann.” Í seinni hálfleik breytti Viggó varnaráherslum og fannst Birki vörnin finna sig betur eftir það. “Við vorum að finna aðeins meira fyrir hvor öðrum, hún opnaðist svolítið mikið í fyrri hálfleik. Sóknarleikurinn var að hökta, fengum mikið af hraðaupphlaupum á okkur. Þeir voru ekkert hættulegir úr stöðusóknum en voru erfiðir á fyrsta, öðru og þriðja tempói í skyndisóknum.”
Birkir viðurkenndi það að það væri gríðarlega mikilvægt að fá Sigfús Sigurðsson aftur í vörnina fyrir framan sig. “Það er gríðarlega mikilvægt, þetta er náttúrulega bara tröll. Hann er bara virkilega góður varnarmaður og mjög góður sóknarlínumaður líka. Þetta er bara maður sem myndi styrkja hvaða landslið sem er í heiminum. Við eigum ekkert marga varnarmenn af þessu kaliberi, reyndar ekki aðrar þjóðir heldur.”