Eftir ótrúlegar lokamínutur í leik við heimsmeistara Frakka varð niðurstaðan jafntefli 26-26. Ísland hafði yfir 26-23 þegar örskammt var til leiksloka. Við misstum menn útaf og dómararnir sýndu vægast sagt algjört kæruleysi og virtust hreinlega vera að rétta Frökkum knöttinn. T.d. þegar Halldór er hreinlega tekinn í hnébeygju og það er dæmt á hann sóknarbrot eða eitthvað sem enginn virðist vita hvað var.
Strákarnir höfðu yfirhöndina nánast allann leikinn og var það mest að þakka Guðmundi okkar Hrafnkelssyni sem varði meistaralega í dauðafærunum, alveg ótrúlega mikilvæg skot. Guðjón Valur og Ólafur tóku af skarið í sókninni þó hægt færi um Óla seinni part leiks þar sem Frakkarnir tóku heldur hart á honum.
Þegar 2 sekúndur voru eftir áttum við aukakast sem að Guðjón Valur bombaði í þverslána eftir að hafa fengið þriðja boltann inná völlinn.
Í viðtalinu við Guðmund eftir leikinn tjáði hann mönnum að Franski þjálfarinn hefði komið til hans og sagt honum að Íslendingar hefðu átt sigur skilið. Á vísi.is segir Guðmundur Guðmundsson um dómarana: “Þetta eru bara aular.”
Mörk Íslands: Patrekur 7(3), Ólafur 5, Guðjón Valur 5, Dagur 4, Aron 3, Einar Örn 1, Sigfús 1.
Varin skot: Guðmundur 11(skv.visi.is, 16 skv.mbl.is)