Jæja.. núna er heimsmeistaramótið búið þar sem Þjóðverjar stóðu uppi sem sigurvegarar á heimavelli en samt er ég ekki sammála hvernig mótið endaði.. ekki aðeins fyrir hönd Íslendinga, þannig ég ætla að segja hér hvaða lið eru best að mínu mati.
1. Þýskaland
Mér finnst þetta lið einfaldlega vera best.
Markmennirnir Henning Fritz og Johannes Bitter eru eitt það besta í heimi, Henning sá besti að mínu mati og ef hann er ekki að standa sig kemur risinn Bitter í markið og stendur sig yfirleitt vel.
Sóknarlega er það mjög gott en samt ekki það besta í heimi, með leikmenn eins og Pascal Henz, Cristian Zeitz, Holger Glandorf, Torsten Jansen og Florian Khermann í fararbroddi gerir þá að svo til óstöðvandi liði.
Vörnin er eins sú besta ef ekki sú besta með Henning fyrir aftan hana er erfitt að skora.
Breiddin er geggjuð! Og liðsandinn enn betri! Þegar liðið var valið fyrir HM var ekki bara tekið tillit til getu leikmanna heldur var einn sem mældi “Teamspirit.”
5 Nonnar af 5 mögulegum
2. Króatía
90% vinningshlutfall og 5. sæti er fáránlegt.
Markmaður Vlado Sola meiddist fyrir þetta HM þannig þeir þurftu að notast við varamarkmenn sem voru það góðir að Birkir Ívar hefði ekki einu sinni komist á bekkinn ef þeir hefðu verið Íslendingar.
Sóknin er frábær með heimsklassamann í hverri stöðu, Ivano Balic fer þar fremstur í flokki.
Varnarlega séð hefur liðið veikst svolítið eftir að vanrartröllið þeirra, Davor Dominkovic, féll á lyfjaprófi, en samt er vörnin “awesome” eins og maður segir á góðri íslensku.
En þegar kemur að breidd og liðsanda fellur liðið aðeins. Breiddin er fín en hún er ekkert notuð. Í þessu liði eru sex til sjö leikmenn sem spila jafnmikið og Einar Örn Jónsson og Ragnar Óskarsson, sumsé ekkert. Og liðsandinn virðist ekki vera hár því Ivano Balic virðist vera liðið, en samt.
4 og hálfur Nonni af 5 mögulegum
3. Danmörk
Sá maður sem ég hata hvað mest er Kasper Hvidt! Hann er mjög góður markmaður og það þoli ég ekki! Ég vil vinna Baunana og hann sér mjög oft fyrir því að við vinnum ekki!
Sóknarlega er liðið með mjög góðar skyttur, stóra stráka sem skjóta fast, ágæta miðjumenn, næst besta vinstri hornamann heims og besta línumann heims að mínu mati.
Vörnin á sína spretti en þegar hún er ekki að standa sig er ekki langt í Kasper Hvíta til að bjarga málunum.
Liðsandinn virðist vera fínn, niðurstaðan
4 Nonnar af 5 mögulegum
4. Pólland
Það hefur lengi legið fyrir að Pólverjar séu með gott sóknarlið en varnarlega hefur vantað upp á.
Markmennirnir Szmal og Weiner eru ágætir en ekki það góðir að þeir séu að taka 10-15 bolta í hverjum leik en þeta eiga sína stórleiki.
Sóknin, tvær stórskyttur, heimsklassa leikstjórnandi, ágætis línumaður og mjög góður hægri hornamaður. En gallinn er eins og við sáum í úrslitaleiknum, að ef það er gengið nógu langt út í skytturnar fer allt í köku, svotil.
Vörnin er orðin mjög góð en það þarf að skipta svo mörgum mönnum inn á á milli varnar og sóknar, tveimur til þremur.
Liðsandi og breidd er ekki að heilla mig upp úr skónum. Liðsandinn virðist ekki vera nógu góður og annað hvort er breiddin svona lítil eða þjálfarinn vill ekki nota alla leikmennina. Sumir þarna virðast spila hægri eða vinstri bekk sem er ekki nógu gott.
3 og hálfur Nonni af 5 mögulegum
5. Ísland
Hér ætla ég að setja Ísland og það er ekki bara útaf því að ég er Íslendingur. Ísland er ekkert lélegra heldur en Pólland eða Danmörk, það sem vantar er vörn!
Markmenn, Birkir Ívar er allt í lagi og Roland á sína spretti en mér finnst Hreiðar ekki vera að gera sig.
Sóknin var sú besta á mótinu sem leið hvað markafjölda varðar en nýting, ég veit ekki. En við höfum besta vinstri hornamann heims, bestu hægri skyttuna ætla ég að leyfa mér að segja og allar hinar stöðurnar eru í heimsklassa, kannski fyrir utan vinstri skyttuna sem blómstrar af og til en er döpur þess á milli.
Vörnin. Ísland á enga mjög góða varnarmenn, Sverre er ágætur en ekki nógu og góður. Það vantar varnarmenn! Þetta er svona það versta sem ég sé við liðið.
Liðsandi og breidd. Liðsandinn virðist vera mjög góður en breidd… skulum ekkert vera að tala um það.
3 og hálfur Nonni af 5 mögulegum
Liðin sem fylgja á eftir eru:
6. Spánn
Þótt við höfum tapað fyrir Spánverjum held ég að við séum betri.
3 og hálfur Nonni af 5 mögulegum
7. Frakkland
Evrópumeistararnir voru ekki alveg að gera sig fannst mér. Mér finnst liðið vera að brenna svolítið út, eins og Spánverjar, en samt frábært.
3 Nonnar af 5 mögulegum
8. Noregur
Þótt þeir hafi ekki komist í milliriðla finnst mér þeir eiga heima í topp átta.
3 Nonnar af 5 mögulegum
Vona að þið hafið notið