KA þarf aðeins að sigra í einum leik til viðbótar til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í handbolta. KA sigraði Hauka örugglega, 27:18 á Akureyri, í þriðja úrslitaleik liðanna. KA hefur nú tekið 2:1 forystu í einvígi liðanna. Leikurinn í kvöld var spennandi framan af og munaði aðeins þremur mörkum á liðunum í hálfleik. Í síðari hálfleik gáfu KA-menn hinsvegar í og náðu fljótlega öruggu og þægilegu forskoti sem þeir héldu til loka.
Guðjón Valur Sigurðsson átti stórleik í liði KA en hann skoraði 9 mörk. Andrius Stelmokas var einnig mjög atkvæðamikill með 8 mörk og Halldór Jóhann Sigfússon skoraði 3 mörk. Hörður Flóki Ólafsson varði mjög vel í marki KA, um 20 skot.
Hjá Haukum voru þeir Rúnar Sigtryggsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson markahæstir með 5 mörk hvor. Jón Karl Björnsson og Aliaksandr Shamkuts skoruðu 3 mörk hvor. Bjarni Frostason náði sér ekki á strik í marki Hauka en hann varði aðeins 4 skot. Magnús Guðbjörn Sigmundsson varði 5 skot.
Don't take life too seriously… You'll never get out of it alive anyway :)