Það var rafmögnuð spenna í KA heimilinu í gærkvöld þegar leikur KA og Víkinga hófst í undanúrslitum bikarkeppninnar. Framan af var leikurinn jafn en Víkingar voru þó skrefinu á undan fyrstu mínúturnar. Eftir 10 mínútur komu KA menn skipulagi á leik sinn og Víkingar máttu vera sáttir við stöðuna í leikhléi, 13-11. Augljóst var að taugaspenna hafði áhrif á suma leikmenn sem ekki virtust finna sig í leiknum. Heimamenn mættu afar grimmir til leiks í síðari hálfleik og fljótlega jókst munurinn í 3-5 mörk og þegar fimm mínútur voru til leiksloka virtist öruggur sigur í höfn en þá var staðan 27-20. Á þessum tímapunkti misstu KA menn tvo leikmenn útaf og Reynir Þór markvörður Víkinga hreinlega múraði fyrir markið. KA mönnum virtist lífsins ómögulegt að koma boltanum framhjá honum. Víkingar skoruðu sex síðustu mörk leiksins og voru ískyggilega nálægt því að jafna undir lokin sem hefði þó verið verulega ósanngjarnt miðað við gang leiksins. Lokatölur voru 27-26.
Leikurinn var í heild vel spilaður af báðum liðum en spennan setti þó mark sitt á leik liðanna. Hafþór Einarsson, Jónatan Magnússon og Andrius Stelmokas voru bestu menn KA liðsins og átti Hafþór frábæran leik í markinu sem hann kórónaði með því að verja síðasta skot Víkinga þegar um 10 sekúndur voru eftir af leiknum. Skyttur liðsins, Arnór og Einar Logi voru óvenju daufir sérstaklega í fyrri hálfleik og lítið kom út úr hornamönnum liðsins.
Miðað við mikilvægi leiksins var fremur fámennt en afar góðmennt í KA heimilinu í gærkvöld og stemmingin geysilega góð. Aðsóknin á leikinn var hins vegar vonbrigði fyrir alla aðila, ekki síst hina samviskusömu og metnaðargjörnu leikmenn liðsins. Þeir eru nú að uppskera árangur mikillar vinnu og til að komast alla leið þarf liðið meiri stuðning, ekki aðeins í örfáum leikjum undir vor.
Það sem upp úr stendur er hins vegar að sigur vannst og KA liðið er á leið í bikarúrslitaleik í Laugardalshöll 28. febrúar nk. og þá streyma að sjálfsögðu allir KA menn suður yfir heiðar gulir og glaðir.
Mörk KA: Andrius 8, Einar Logi 6, Jónatan 6, Arnór 4, Sævar 1,Árni Björn 1, Bjartur Máni 1.
Sweetes