Dómarar, skómarar…það er of einfalt að kenna dómurum um svona töp. Væri ekki betra að líta í eigin barm og spyrja frekar hvers vegna staðan var þannig að svona smáatriði eins og einn rangur dómur skipti sköpum?
Til að byrja með var liðið ekki á tánum. Jú, seinni partur fyrri hálfleiks var svo sem ágætur en mest allan leikin voru íslensku leikmennirnir hugmyndsnauðir og virtust langt frá sínu besta. Við fengum mýmörg tækifæri til að komast þremur mörkum yfir en nýttum ekkert þeirra. Það var eins og eitthvað slen lægi yfir liðinu og þeir hefðu ekki minnsta áhuga að reka það af sér.
Í annan stað voru einstaka leikmenn hreinlega að eyðileggja fyrir okkur. Patti fer þar fremstur í flokki. Ég verð nú bara að viðurkenna það, að ég skil ekki og hef aldrei skilið hvers vegna hann er í landsliðinu. Ég held að ég hafi hvergi og geti hvergi fundið jafn mistækan og seinheppinn leikmann og hann. Hann getur ekki spilað almennilega vörn, hann er eins og naut í flagi þegar hann fær að fara í sókn og veit hvorki í þennan heim né annan. Sendið manninn heim á eiginn kostnað, ég er meira efni í landsliðsmann í hægri rasskinninni en hann er í öllum sínum líkama. Þó hef ég ekki komið nálægt handbolta í talsverðan tíma (djöfull hlýt ég þá að vera góður ;)).
Dagur er meiddur, Dagur er ekki meiddur, Dagur er meiddur en fer með og svo er Dagur ekki meiddur. Ég held að Guðmundur ætti að gera upp hug sinn, annað hvort er maðurinn meiddur eða ekki. Hann var augljóslega ekki í leikæfingu, skotin voru skelfileg en hitt má þó ekki taka af honum, hann átti margar gullfallegar sendingar.
Persónulega fannst mér þeir standa upp úr Steinn Snorri og Guðmundur. Báðir tel ég að hafi átt stærstan þátt í að ekki fór verr. Einnig stóð Ólafur fyrir sínu, en mætti ekki krefjast meira af honum? Ég veit að núna segja margir að þetta sé besti handboltamaður í heimi og alltaf sé hann í gæslu osfrv., en það er einmitt málið. Hann er besti handboltamaður í heimi, en skorar ‘ekki nema’ 5-7 mörk í leik + stoðsendingar….ég veit ekki um ykkur, ég hef það á tilfinningunni að hann haldi oft aftur af sér, sérstaklega ef hann hefur skorað grimmt í fyrri hálfleik. Hann skorar td. aldrei yfir 10 mörk í leik, það er í það minnsta talsvert síðan.
En hvað um það, við vitum öll að þeir geta betur og sýna okkur stórleik á móti Ungverjum og Tékkum. Ungverjar vinna síðan Slóvena en tapa fyrir okkur stórt…við stöndum uppi sem sigurvegarar riðilsins eftir góðan sigur á Tékkum…allt fer þetta á hinn besta veg og íslenska bjartsýnin sigrar að lokum….ÁFRAM ÍSLAND!!!