Nú hefur verið gengið frá samningum við þá leikmenn sem verða áfram hjá handboltaliði KA næsta vetur segir í frétt á heimasíðu félagsins. Stærsta spurningarmerkið var við Jónatan Magnússon og um tíma leit út fyrir að hann færi í atvinnumennsku á Spáni. Nú hefur Jónatan sem sé skrifað undir nýjan samning ásamt öðrum liðsmönnum.
Þeir sem fara eru Egidijus Petkevicius markvörður til Fram, Baldvin Þorsteinsson í Val, Hilmar Stefánsson í Aftureldingu og Arnar Sæþórsson annað hvort í Val eða Fram. Ákveðið er að liðið bæti við sig markverði og hægri hornamanni, auk þess sem fleiri gætu slæðst með og ættu mál markvarðarins og hornamannsins að skýrast mjög fljótlega en KA hefur þar úr 2-3 leikmönnum að velja í hvora stöðu.
Til dæmis eru góðir möguleikar á því að KA fái til sín markvörðinn Pálmar Pétursson úr Val, en hann er einnig aðalmarkvörður í 18 og 20 ára landsliðum Íslands og talinn mjög efnilegur markvörður. KA hefur einnig rætt við markverði Þórs þá Hafþór Einarsson og Hörð Flóka Ólafsson sem báðir eru fyrrum leikmenn KA um möguleikana á að annar þeirra skipti yfir í KA. Þá hefur heyrst að KA hafi áhuga á Halldóri Oddssyni vinstri hornamanni frá Þór og ekki kæmi á óvart þó þeir litu hýru auga til hins örvhenta hægri hornamanns Þórs Goran Gusic og raunar herma fregnir að KA eigi í viðræðum við Goran um að fylla skarð Hilmars Stefánssonar í KA-liðinu næsta vetur.
Heimildir: www.sport.is
Kveðja kristinn18