Gústaf Adolf Björnsson var í við tali við sportid.is og hérna er það.
Gústaf Adolf Björnsson er þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Haukum í handbolta. Þetta lið hefur verið mjög sigursælt síðustu misseri en hefur aðeins misst flugið á þessu tímabili. Við höfðum samband við Gústaf og ræddum aðeins við hann.
1. Nú er ÍBV búið að vinna alla sína leiki í deildinni en ykkur hefur ekki gengið nógu vel miðað við árangur síðustu tímabila. Hvers vegna skilur svona að og er ÍBV að verða óvinnandi vígi í handboltanum?
Skýringin á góðu gengi ÍBV er sú að liðið er vel mannað. Til liðsins hafa komið leikmenn sem eru góðir í handbolta og skila sínu. Umgjörðin í kringum liðið er greinilega mjög góð og liðið er í meðbyr. Hvað okkur varðar eigum við langt í land að ná fyrri styrkleika. Það er verið að leita eftir að ná stöðugleika og vonandi tekst okkur að bæta okkar leik og í kjölfarið innbyrða fleiri sigra. Hvort ÍBV er að verða ósigrandi vígi skal ósagt látið. Tíminn verður að leiða það í ljós.
2. Hver er þín skoðun á kaupum íslenskra félagsliða í handbolta kvenna á erlendum leikmönnum?
Ef markmiðið er að vera í fremstu röð í keppni innanlands og aðstæður leyfa þ.e. stjórnir viðkomandi deilda hafa þannig fjárhagsramma að hægt er að færa út kvíarnar í leikmannamálum, tel ég það sjálfsagt mál. Þá skiptir ekki máli hvaðan góðir leikmenn koma. Dæmin hafa sýnt okkur að erlendir leikmenn hafa lyft grettistaki og er það vel.
3. Hvernig er staðan á þínum liðsmönnum í dag? Eru allir heilir?
Að lokinni fyrstu umferð er staðan sú að leikmenn bíða eftir tækifærinu í næstu umferð til þess að gera betur. Allir leikmenn eru heilir og þeir sem ekki hafa verið það eru að koma til.
4. Hvað finnst þér um leikjafyrirkomulag deildarinnar, er eitthvað þar sem þú myndir breyta?
Það er klárlega til bóta að leika fleiri leiki í deildarkeppninni þ.e.a.s. þrefalda umerð og síðan tekur við hefðbundin úrslitakeppni átta liða. Ég vildi sjá bikarkeppnina leikna heima og heiman, eins og gert er víða, til þess að fá enn meiri keppni þar áður en sjálfur úrslitaleikurinn fer fram í Höllinni. Þá erum við komin í sama keppnisform og tíðkast í öllum Evrópuleikjunum þ.e. leika heima og úti.
5. Íslenska kvennalandsliðið tekur þátt í æfingamóti í Slóveníu næstu daga. Hvaða skoðanir hefur þú á vali hans í liðið?
Það er bara þannig að þegar kemur að vali á landsliði þá sýnist sitt hverjum en það er bara einn maður sem ræður. Auðvitað velur hann það lið sem hann telur sterkast í það og það skiptið. Í ljós hefur komið að margir leikmenn sem hann hafði hug á að velja gáfu ekki kost á sér. Það velur sér enginn tíma í landslið. Leikmenn verða að vera tilbúnir þegar að kallið kemur. Á það hefur skort.
6. Næsti leikur ykkar er gegn liði Fram. Þær sitja í neðsta sætinu í deildinni með aðeins einn leik unninn. Hvernig leggst sá leikur í þig?
Sá leikur leggst vel í mig eins og allir leikir. Við förum í næstu umferð með það að markmiði að gera betur í stigum talið en við gerðum í þeirri fyrstu. Tilhlökkun er orðið sem kemur fyrst upp í hugann og sækja þau tvö stig sem eru í boði.
7. Stöðugt heyrast raddir þess efnis að andlegur undirbúningur liðs og leikmanna sé alveg eins mikilvægur og sá líkamlegi. Hvar stendur þú í þeim efnum og ert þú með sérstakar æfingar sem stuðla að andlega sviðinu eins og því líkamlega?
Það eru margir þættir sem koma inn þegar þjálfun á meistaraflokksliði ber á góma. Þeir eru líkamlegir, sálfræðilegir, félagslegir o.s.frv. Innan líkamlegu þáttanna eru margir þættir eins og þol, kraftur, hraði, liðleiki og samhæfing. Að öllu þessu þarf að huga. Sálfræðilegu þættirnir eru sömuleiðis margir: persónuleiki, agi, ákveðni, sjálfsímynd, hvatning, spennustjórnun o.s.frv. Leikmenn eru misjafnir hvað þessa þætti varðar og við þjálfarnir líka. Félagslegu þættirnir eru sömuleiðis mikilvægir: stjórn, starfsmenn, stuðningsmenn, æfingaaðstaða, mannvirki, sambýlisform, fjölskyldur, nám/vinna o.s.frv. Það væri of langt mál að halda áfram en eftir stendur að þjálfarinn á alltaf að hafa heildaryfirsýn. Af nóg er að taka.