Eric Clapton – Time Pieces: Best Of Eric Clapton Eric Clapton – Time Pieces: Best Of Eric Clapton

Eric Clapton fæddist 30. Mars 1945, í Riplay í Englandi. Þessi magnaði gítarleikari hefur verið í mörgum frægum hljómsveitum á borð við Cream, Yardbirds, Derek And The Dominos, Blind Faith og John Lennon & The Plastic Ono Band, auk farsæls sólóferils. Í maí 1982 kom svo út best of plata, með öllum hans bestu
lögum. Á plötunni eru 11 lög frá árunum 1970 til 1978.

1. I Shot The Sheriff
(Bob Marley) 4:21
2. After Midnight
(J.J. Cale) 3:09
3. Knockin’ On Heaven’s Door
(Bob Dylan) 4:19
4. Wonderful Tonight
(Eric Clapton, Michael Kamen) 3:38
5. Layla
(Eric Clapton, Jim Gordon) 7:04
6. Cocaine
(J.J. Cale) 3:33
7. Lay Down Sally
(Eric Clapton, Marcy Levy) 3:48
8. Willie And The Hand Jive
(Johnny Otis) 3:27
9. Promises
(Richard Feldmann, Roger Linn) 2:59
10. Swing Low Sweet Chariot
(Traditional) 3:27
11. Let It Grow
(Eric Clapton) 4:55

Gamla Bob Marley lagið I Shot The Sheriff er upphafslag plötunnar. Kom fyrst út árið 1973 á plötunni Burnin’, sem er án efa ein besta reggí plata allra tíma. Clapton spilaði lagið fyrst á plötunni 461 Ocean Boulevard frá 1974. Mjög gott cover, eitt af betri lögum plötunnar. Að mínu mati betra en upprunalega útgáfan, þó bæði lögin séu vissulega mögnuð. Albhy Galuten spilar á píanó í frekar rólegu lagi.

Næst er það J.J. Cale lagið After Midnight. Hann er og var frægur blús rokkari, ennþá sprelllifandi þó hann sé kominn á aldur. Hann hefur haft mikil áhrif á Clapton um árin. Af sjálfnefndri plötu kappans, sem heitir einfaldlega Eric Clapton frá 1970. Ótrúlegur gítarleikur og einnig er textinn bráðskemmtilegur á köflum:

We’re gonna stimulate some action;
We’re gonna get some satisfaction.
We’re gonna find out what it is all about.
After midnight, we’re gonna let it all hang down.


Seinna tók Clapton lagið aftur fyrir auglýsingu fyrir Michelob bjórinn.

Þriðja lag plötunnar er reggí útgáfa af klassísku snilld Bob Dylans, Knockin’ On Heavens Door. Lagið kom út sem singull árið 1975, próduserað af Tom Dowd. Ágætt lag en langt frá frumgerðinni í gæðum að mínu mati. Annars er þetta vel útfært lag með flottu sólói í miðju lagi þó þetta sé með verri lögum plötunnar, þó svo að þau séu flest frábær.

After Midnight er fyrsta lagið eftir Clapton sjálfan, af plötunni Slowhand frá árinu 1977, sem er án efa eitt hans besta verk. Textinn fjallar um þáverandi eiginkonu hans, Patti. Eitt sinn voru þau á leið í veislu og var Clapton þá orðinn heldur óþolinmóður eftir að hún væri búin að gera sig tilbúna, og á meðan að á biðinni stóð settist hann niður og samdi lag, sem var víst aðeins til að drepa tímann, en það endaði sem ein fallegasta ástarballaða allra tíma. Söngurinn er frábær og gítarleikurinn ekki verri. Næst besta lag plötunnar að mínu mati.

Næst fáum við að heyra lagið Layla, frá því að Clapton var í Derek And The Dominos, af plötunni Layla And Other Assorted Love Songs frá árinu 1970. Upphafsriff lagsins er ávalt á lista yfir flottustu gítarriff allra tíma og man ég barasta ekki eftir lista þar sem lagið er ekki á topp tíu. Clapton og Jim Gordon, trommari sveitarinnar, sömdu lagið í sameiningu, mitt uppáhaldslag á plötunni. Kraftmikið lag með fullkomnum hljóðfæraleik. Clapton samdi lagið með Michael Kamen, sem vann ma. að S&M plötu Metallica auk þess að hafa unnið með David Bowie og fleirum. Kamen lést í nóvember 2003 vegna hjartaáfalls, aðeins 55 ára gamall.

Næstu tvö lög, Cocaine og Lay Down Sally eru af sóló plötunni Slowhand frá 1977, eins og Wonderful Tonight. Cocaine er annað J.J. Cale lagið á plötunni. Byrjar á öflugu riffi og textinn, eins og margir textar eftir J.J. Cale alveg þrælmagnaður, hápunktur lagsins er svo sólóið, sem Clapton framkvæmir af stakri snilld. Lay Down Sally er samið af Clapton og Marcy Levy úr ‘Eric Clapton Band’ ágætis lag með grípandi viðlagi, einnig með flottu sólói. Marcy Levy syngur með í viðlaginu.

Willie And The Hand Jive er 8. lag plötunnar. Samið af R&B og blús tónlistarmanninum Otis Redding. Af 461 Ocean Boulevard frá 1974, ekki mikið um þetta lag að segja. Næst er lagið Promises eftir Richard Feldmann og Roger Lynn, sem ég satt best að segja hef ekki hugmynd um hverjir eru. Byrjar með rólegu undirspili og söng og svo bætist flottur gítarleikur inní. Frekar flott lag af plötunni Backless frá 1978.

Swing Low Sweet Chariot er að því sem ég best veit eftir óþekktan höfund. Byrjar rólega en byggist svo upp. Mjög fallega sungið af Clapton og Marcy Levy. Af plötunni There’s One In Every Crowd frá árinu 1975. Seinasta lag plötunnar samdi hann sjálfur. Let It Grow er af ‘461 Ocean Boulevard’ frá 1974. Skemmtilegt lag með ágætum hljóðfæraleik og gott lag til að enda á.

Í heild er þetta frábær safnplata frá einum af bestu tónlistarmönnum aldarinnar, og mæli ég með þessari plötu fyrir alla rokkunnendur.

Heimildir:AMG og plötuumslagið.