Árið 1965 gáfu Bítlarnir út sína fimmtu plötu sem fékk nafnið Help. Hún var gefin út þann 6. ágúst í Englandi en þann 13. í Bandaríkjunum. Eins og fyrri plötur þeirra var hún tekin upp í Abbey Road stúdíóinu í London undir stjórn George Martins og var umslagið hannað af Robert Freeman. Mörg laganna á plötunni voru líka í Help-bíómyndinni sem hafði verið frumsýnd stuttu áður.
Þessi frábæra plata byrjar á flottu lagi eftir John Lennon sem heitir Help. Lennon sagði eitt sinn að það væri eitt af uppáhalds Bítlalögunum hans af því að textinn væri “raunverulegur”. Lagið var samið á þeim tíma þegar John drakk mikið, át og þyngdist, og brestir voru komnir í hjónabandið. Hann kallaði það “feita Elvis-tímabilið”. Í fyrstu átti lagið að vera rólegt í stíl Bob Dylans en var síðan ákveðið að hafa það hraðara og fjörugra til þess að það vekti meiri hrifningu meðal unglinganna. Vegna þess að ung blaðakona hafði verið að kvarta yfir því hve textar Bítlanna væru einfaldir setti John Lennon orð eins og “selfassured”, “appreciate” og “independence” inn í hann.
Þar tekur við ágætis lag eftir Paul McCartney, Night Before. Það sem gerir þetta lag dáldið sniðugt er að John Lennon spilar þar á rafmagnspíanó. Lagið var bara tekið upp í tveimur tökum í stúdíóinu og syngja þeir John Lennon og George Harrison bakraddir af fullum krafti.
You’ve Got To Hide Your Love Away er skemmtilegt lag eftir John Lennon og fjallar um umboðsmann Bítlanna, Brian Epstein. Lennon meinar að það borgi sig fyrir hann að leyna samkynhneigð sinni. Í laginu spila George, John og Paul allir á kassagítara og Ringo spilar einungis á tamborínu, semsagt enginn bassi og engar trommur. John Lennon syngur það einn, án bakradda. Flautuleikarinn John Scott tekur stutt sóló í laginu.
Næsta lag er samið og sungið af George Harrison, I Need You. Frábært lag sem sýnir það að George getur alveg eins samið lög og John og Paul.
Another Girl er eftir Paul McCartney. Í laginu spilar hann í fyrsta sinn á sólógítar inn á Bítlaplötu, hann spilar t.d. sólóið í endanum. Fínt lag og má þess líka geta að það var einungis tekið upp einu sinni í stúdíóinu.
You’re Gonna Lose That Girl er skemmtilegt Lennon-lag og Paul McCartney spilar á píanó í því. Mikill bongo-trumbusláttur frá Ringo og bakraddirnar frá George og Paul setja stóran svip á lagið.
Annað lag eftir John Lennon, Ticket To Ride. Frábært lag og með frægustu á plötunni. Lagið var virkilega þungt miðað við hvað aðrir voru að gera á þessum tíma, eitt af fyrstu heavy metal-lögunum, eins og John benti á löngu seinna. Textinn fjallaði um stelpu sem var að segja honum upp. Paul McCartney spilaði sólógítarinn eins og á Another Girl og hann syngur líka efri röddina í laginu. Þetta var fyrsta Bítlalagið sem var lengra en þrjár mínútur. Þess má líka til gamans geta að John Lennon samdi lagið sama dag og hann fékk bílpróf.
Áttunda lag plötunnar heitir Act Naturally og er sungið af Ringo Starr. Upphaflega var lagið samið af þeim Johnny Russell og Vonie Harrison. Ágætis lag, kántrístíll yfir því og þrátt fyrir að Ringo sé ekkert sérstakur söngvari smellpassar röddin hans inn í lagið og erfitt væri að ímynda sér Paul eða John syngja það. Bítlarnir höfðu fyrst hugsað sér að láta Ringo syngja lag eftir John og Paul sem hét If You’ve Got Trouble en ákváðu síðan að láta hann syngja þetta í staðinn. Paul McCartney syngur efri röddina.
Næsta lagið á plötunni er eftir John Lennon og heitir It’s Only Love. Til gamans má geta að vinnuheitið fyrir það var That’s A Nice Hat. Árið 1969 sagðist John Lennon vera virkilega óánægður með textann í laginu og að hann væri andstyggilegur. Hann sagði að þetta hefði verið eitt af því lélegasta sem hann hefði samið. En hvað sem því líður þá finnst mér þetta frábært lag. John syngur lagið og “double-trakkar” í viðlaginu.
You Like Me Too Much er samið og sungið af George Harrison. Frábært lag, textinn fjallar um samband þar sem hvorugur aðilinn elskar hinn, en hefur þó ekki kjark til að slíta sambandinu. Í laginu spila bæði George Martin og Paul McCartney á sama píanóið og John Lennon spilar á rafmagnspíanó. Paul McCartney syngur neðri röddina í viðlaginu.
Tell Me What You See heitir næsta lag og er það samið af Paul McCartney. Hann syngur það ásamt John Lennon og spilar einnig á rafmagnspíanó. Fínasta lag.
Tólfta lag plötunnar heitir I’ve Just Seen A Face. Í fyrstu var það instrumental-lag og frænka hans Pauls var svo hrifin af því að þeir kölluðu það “Auntie Gin’s Theme”. En þegar textinn var saminn og ákveðið að láta Paul McCartney syngja í því fékk það nafnið sitt. Eins og í You’ve Got To Hide Your Love Away spila George, Paul og John allir á kassagítara. Virkilega flott lag með dálitlu kántíívafi.
Nú er komið að þessu yndislega lagi sem maður sleppur aldrei við að fá gæsahúð við að hlusta á, Yesterday. Að mínu mati besta lagið á plötunni og eitt af bestu Bítlalögunum, og að sjálfsögðu frægustu. Paul McCartney á heiðurinn af meistaraverkinu, en melódían kom til hans í svefni. Paul var viss um að fyrst að hann hefði dreymt þetta hlyti hann að hafa heyrt það einhverntímann áður svo hann spurði fólk úr tónlistarbransanum hvort þau könnuðust við það. En enginn kannaðist við það svo hann hlaut að hafa samið það. Textinn við lagið var allt öðruvísi í fyrstu heldur en eins og við þekkjum hann. Allra fyrst var það: Scrambled eggs, oh my baby how I love your legs. Seinni útgáfan af fyrsta erindinu var svona:
Scrambled eggs,
Have an omelette with some muenster cheese,
Put your dishes in the washbin please,
So I can clean the scrambled eggs.
Hann sagðist alltaf hafa samið lagið einu og hálfu ári áður en það var tekið upp fyrir Help-plötuna. Það hefði í rauninni þessvegna getað lent á A Hard Days Night-plötunni eða Beatles For Sale en að sögn George Martin hafði Paul McCartney fundist það ekki passa við það efni. Paul McCartney syngur það einn, og spilar á kassagítar, ásamt strengjakvartett sem George Martin útsetti snilldarlega. En hinir Bítlarnir koma hvergi nálægt laginu. Hrein klassík.
Svo er það bara lokalagið, Dizzy Miss Lizzy. Lagið er samið af Larry Williams og er ekta sixtís “rock and roll” lag. Sungið af John Lennon með miklum krafti.
Jæja, þá er ég búinn að renna yfir þessa ágætu plötu. Hugsa að ég fari ekkert að gefa henni neina einkunn, þær eru allar svo góðar, Bítlaplöturnar.
kv. Jói