Klárlega einn sá besti í bransanum og allt of langt síðan hann hefur gefið frá sér nýtt efni. Þessi meistari gaf út sína fyrstu breiðskífu árið 1967, nánar tiltekið sama dag og Bítlarnir sendu frá sér meistaraverkið Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band. Þessi "debut" plata hans fékk ekki mikla athygli, en nokkru seinna gaf hann út lagið Space Oddity á smáskífu og skoraði þar með sinn fyrsta smell. Þetta var bara byrjunin því að hann átti eftir að verða ein glæstasta stjarna áttunda áratugarins og einn af áhrifamestu tónlistarmönnum tuttugustu aldarinar. Meðal hans þekktustu platna má nefna Hunky Dory, The Rise And Fall Of Ziggy Stardust And The Spiders From Mars, Aladdin Sane, Young Americans og Low.