frå
http://www.ruv.is/main/view.jsp?branch=2832673&e342RecordID=14563&e342DataStoreID=2832215RAY DAVIES til landsins í fjórða sinn.
GOÐSÖGNIN RAY DAVIES TIL ÍSLANDS Í APRÍL TÓNLEIKAR Í HÁSKÓLABÍÓ 14. APRÍL NK.
Ray Davies, einhver farsælasti og áhrifamesti lagahöfundur sem kom fram á breska tónlistarsviðið á 7. áratugnum, er á leið til Íslandis til tónleikahalds í fjórða sinn.Davies mun halda eina tónleika í Háskólabíói 14. apríl nk. og skal það tekið fram að aðeins verður um eina tónleika að ræða og því sætaframboð afar takmarkað.
Davies kemur hingað til lands ásamt hljómsveit sinni og mun flytja blöndu af gömlum perlum sínum og spánýjum lögum en í febrúar gefur Davies út sína allra fyrstu sólóplötu með nýju efni.
Ray Davies verður ætíð kenndur við hljómsveit sína The Kinks, sem er einhver mikilsvirtasta og áhrifamesta hljómsveit gervallrar rokksögunnar. Davies stofnaði The Kinks ásamt bróður sínum Dave í Lundúnum árið 1963.
Sveitin sendi frá sér fjölda laga sem urðu vinsæl um heim allan; hið fyrsta var “You Really Got Me”, og á eftir fylgdu “All Day and All of The Night”, “Tired of Waiting”, “Set Me Free”, “See My Friends”, “Till The End of The Day”, “A Well Respected Man”, “Lola”, Sunny afternoon”, “Dedicated Follower of Fashion”, “Apeman”, “Waterloo Sunset” og “Come Dancing” svo fáein séu nefnd. Davies samdi einnig allnokkrar rókkóperur sem ollu straumhvörfum; þ.á.m. Arthur, The Village Green Preservation Society, Preservation og Soap Opera.
The Kinks átti ríkan þátt í “Bresku innrásinni” svokölluðu, þegar breskar rokksveitir lögðu rokkheiminn að fótum sér á 7. áratugnum, og ruddu um leið brautina fyrir aðrar rokksveitir, gjarnan í harðari kanntinum, en “You Really Got Me” hefur stundum verið sagt fyrsta þungarokkslagið, jafnvel fyrsta pönklagið.The Kinks átti stöðugu fylgi að fagna í hartnær tvo áratugi, einkum í Bandaríkjunum þar sem vinsældir sveitarinnar urðu jafnvel enn meiri en í Evrópu. The Kinks var innvígð í Frægðarhöll rokksins – Rock and Roll Hall of Fame – árið 1990 og hefur Ray Davies átti góðu gengi að fagna sem sólólistamaður, leikari, söngleikjahöfundur og sjónvarps- og kvikmyndatónskáld síðustu áratugi.
Davies gaf út sjálfsævisögu sína “X-Ray” árið 1995 og hlaut mikið lof fyrir. Síðan þá hefur hann ferðast um heiminn með sólósýningu sína The Storyteller en fyrsta sólóplatan hans “Storyteller” kom út í mars 1998 og innihélt hún órafmagnaðar útgáfur af helstu lagasmíðum hans, einkum frá gullaldarárum Kinks.
Sumarið 2000 fengu íslenskir Kinks-unnendur, gamlir sem nýir, kærkomið tækifæri til að sjá hina margrómuðu Storyteller-tónleika Ray Davies í Laugardalshöll þegar Davies var aðalnúmerið á tónlistarhátíðinni Reykjavik Music Festival. Þeir tónleikar eru þeim sem sáu enn ofarlega í minni en þar kom Davies einn fram með gítar sinn og lék öll sín dáðustu lög og sagði söguna á bak við þau af sinni einstöku kímnigáfu og frásagnarsnilli.
Þetta var þó hreint ekki í fyrsta sinn sem Davies hafði leikið á Íslandi því The Kinks lék tvisvar sinnum á Íslandi og ber þar hæst söguleikar sem sveitin hélt í Austurbæjarbíói í september 1965, ásamt íslensku unglingasveitinni Tempó, sem m.a. var skipuð Þorgeiri Ástvaldssyni. Teljast þeir tónleikar einir allra fyrstu rokktónleikar sem heimsfræg erlend hljómsveit hélt á Íslandi.
Aftur komu þeir 1970 og léku á tónleikum til styrktar KSÍ fyrir hálffullri Laugardalshöll enda hafði sveitin verið í nokkurri lægð um þær mundir. Ray Davies var aðlaður af Elísabetu Englandsdrottningu í ársbyrjun 2004 er hún sæmdi hann CBE orðunni. Framlag hans til breskrar listsköpunar þykir enda ómetanlegt og hafa listamenn allt frá Pete Townshend til Paul Weller, Morriseys og Damon Albarns ítrekða lýst honum sem sínum helsta áhrifavaldi og hefur hann á síðari árum gjarnanverið kallaður “Guðfaðir Brit-poppsins”.
Ófá lög Davies hafa öðlast nýtt líf í flutningi hljómsveita á borð við The Jam, Van Halen, The Pretenders og The Stranglers og á fertugs afmæli The Kinks þá tóku margar af vinsælustu rokksveitum samtímans sig til og vottuðu Davies og sveitinni virðingu sína og sýndu þakklæti með því að gera sínar útgáfur af Kinks-lögum og gefa út á tveimur svokölluðum “tribute-plötum” árið 2003 sem heita “This is Where I Belong” og “Give the People What We Want”. Þeta voru sveitir á borð við the Vines, the Hives, the Audio Bullys og the Libertines.
Undanfarna mánuð hefur Ray Davies unnið hörðum höndum að sinni fyrstu sólóplötu með nýjum efni, auk þes sem hann hefur unnið með listhópnum Really Useful Group að uppsetningu nýs söngleiks eftir hann sem heitir Come Dancing.
Umrædd fyrsta eiginlega sólóplata Davies kemur svo út 6. febrúar nk.
á vegum útgáfufyrirtækis Richards Bransons, V2. Platan mun heita “Other People’s Lives” og innihalda 12 áður óútgefin lög eftir Davies, sem hann útsetti sjálfur og stjórnaði upptökum á.
Plötunnar nýju er að vonum beðið með mikilli eftirvæntingu en þar ku Davies vera í miklum ham og sýna sínar bestu hliðar sem lagahöfundur. Fyrstu línurnar á plötunni segja: “Hér eftir verður allt breytt, nú þegar morgundagurinn er upp runninn”.Sjálfur segir hann að þessi orð undirstriki breytt viðhorf sín og vinnubrögð. Hann segist hafa fengið innblásturinn fyrir nýju plötuna frá því að búa í New Orleans, þar sem hann hafi fundið sér bæði tilfinningalegan og líkamlegan griðarstað. “Loksins fannst mér ég eiga heima einhvers staðar og passa inn í, síðan ég yfirgaf Muswell Hill”, segir hann. Lögin 12 segja heila sögu með upphafi og endi; og mætti því kalla plötuna “concept-plötu” eins og svo algengar voru hér á árum áður.
Í nóvember á síðasta ári leit dagsins ljós forsmekkurinn að nýju plötunni, smáplatan “Thanksgiving” sem inniheldur fimm lög sem fjalla um reynslu Davies af því að uppgötva Ameríku. Allur ágóðu af sölu plötunnar hefur runnið beint til tónlistarþróunarmiðstöðva í New Orleans.
Davies mun fylgja plötunni eftir með tónleikaferð um Evrópu og víðar um heiminn og hefst tónleikahrinan í febrúar með tónleikum í Grantham Meres Leisure Center í Grantham í Bretlandi og Shepherds Bush Empire í Lundúnum, 10. og 11. febrúar.
Honum til fulltingis verður hljómsveit hans sem leikið hefur með honum undanfarið og kom við sögu við gerð nýju plötunnar. Umrædd hljómsveit verður sem áður segir með Davies í för er hann sækir Ísland heim og leikur í Háskólabíói.