Saga Derek & The Dominos er sá kafli sem þykir vægast sagt sá ógæfu-legasti á annars róstursamari ævi Eric Claptons
Ímyndið ykkur þessa sögu: frægur gítarleikari ákveður að stofna hljómsveit þar sem leifar af snilligáfu hans var haldið sem algjörri launung. Þegar hljómsveitin er að slípast saman, verður hann ástfangin af eiginkonu besta vinar síns. Vinurinn er líka frægur. Eiginkonan yfirgefur ekki eiginmann sinn svo gítarleikarinn semur heila plötu af ástarjátningum til hennar.Platan “flobbar” og hljómsveitin leysist í kjölfarið upp. Þrír úr hljómsveitinni venda sínu kvæði í kross og ánetjast heróíni. Einn af þeim lætur lífið. Trommarinn verður geðveikur og drepur móður sína. Annar maður sem spilaði í upptökunum lætur lífið á mótorhjólinu sínu við sama götuhorn og bassaleikarinn í bandinu lætur einnig lífið ári seinna. Í kringum þetta allt saman deyr stjúpfaðir hetjunar, sem var reyndar eftir allt saman stjúpafi hans. Hetjan er nú djúpt sokkinn heróínneytandi en platan verður “hit” og aðallagið verður eitt frægasta lag allra tíma.Á endanum fær hana stelpuna og hættir að nota heróín en eitt leiðir að öðru og hetjan okkar er senn komin í botn flöskunnar, þar skiljast leiðir á milli þeirra. Hver myndi trúa svona sögu?
Sagan byrjar í Stax hljóðverinu í Memphis, Tennessee með hjónabandsdúóinu Delaney & Bonnie Bramlett. Delaney hafði stofnað The Shindogs, sem var fastaband í byltingar- kenndum sjónvarpsþætti Jack Good's, Shindig; Bonnie Lynn hafði þá verið bakraddar-söngkona hjá blúshundinum Albert King. Frumburðurinn, hljómplatan Home naut liðsinnis frábæra tónlistarmanna innan vébanda Stax hljóðverisins: Duck Dunn, Al Jackson, Steve Cropper, Booker T Jones og hljómborðsleikarinn Bobby Whitlock. Í Los Angeles hófst parið handa við að koma saman ótrúlegum hópi tónlistarmanna. Píanóleikari Shindogs Leon Russell, bassaleikarinn Carl Radle og trommararnir Jim Karstein, Jim Keltner og Jim Gordon voru allir félagar, það voru líka Jim Price, Bobby Keys og söngkonan Rita Coolidge. Grúppan fékk samning hjá Elektra, sem skilaði sér í plötunni Accept No Substitute.
Nú fór boltinn að rúlla. Nú voru breiðskífur farnar að seljast meira en smáskífur í fyrsta skipti og menn sáu nú tónleika á risaíþróttavöllum. Árið 1969 átti eftir að verða örlagaríkt ár fyrir rokkið. En menn voru farnir að verða ringlaðir af þessum rokksirkus, álagið við að standa fyrir sínum skuldbindingum gagnvart bæði fjárhagshliðinni og síðan væntingum áheyrandana. Eftir að Cream liðaðist í sundur í lok árs 1968, gekk Eric til liðs við aðra “súpergrúbbu” Blind Faith, auk Eric var hjómsveitin skipuð öðrum Cream flóttamanni Ginger Baker, Steve Winwood söngvara sem var nýlega hafði flúið hljómsveitina Traffic og bassaleikarinn Ric Grech. Þeir byrjuðu að fara Ameríkutúr sem átti eftir að reynast hinn mesta skapraun fyrir þá alla. Eric varð að finna ný tónlistarleg landamæri frekar en að draga sig endalega úr bransanum.
Eric tók þau með í hljómleikaferð Blind Faith um Bandaríkin, þar sem hann minntist á við Tom Dowd upptökustjóra hversu mikið honum þótti til koma hvað þau skemmtu sér vel: Eric sagði að þegar hann var á sviði, væri jafn ánægjulegt og að “láta draga úr sér tönn!”) hafði Tom Dowd eftir honum. Túrinn um Bandaríkin reyndist banabiti Blind Faith, þeir komu fyrst fram Í Hyde Park 7 júní 1969 og spilðu síðan á sínum síðustu tónleikum í UCLA Pauley Pavilion, Los Angeles, 26 ágúst það sama ár. Í kringum miðjan júlí var Eric að hugsa um að ganga til liðs við sína nýju vini. Delaney velti fyrir sér möguleikanum með Bobby Whitlock: “Ég man að Delaney spurði mig, Hvað finnst þér um að hann fari að spila á gítar fyrir okkur? Ég sagði. Það yrði mjög gott, en ég verð að fá að gera eitthvað út af þessum bleiku buxum hans.”
Í ágúst kom Blind Faith platan út og fékk frábærar viðtökur beggja vegna Atlantshafsins og náði inná vinsældarlista blökkumanna sem þótti nokkuð gott hjá hvítum listamönnum en allt kom fyrir ekki og Blind Faith var pökkuð í niðursuðudós. Þá gerðist Eric “leigu” gítarleikari spilandi fyrir John Lennon, ásamt fleirum. Í millitíðinni lagði hann drög að túr með Delaney & Bonnie um Evrópu. Í lok ársins mætti bandið, í boði Claptons til að dvelja á sveitar-óðalinu í Hurtwood Edge í Surrey áður en það hélt til Þýskalands. Clapton vildi í raun falla inní heildarmyndina sem einn af bandinu, löngun hans í nafnleynd var ekki uppá teningunum hjá þýsku hljómleikahöldurunum í upphafi ferðarinnar. Í Köln og Hamborg var hljómsveitin auglýst sem Cream. Ekki bara að lagið þekkta Sunshine Of Your Love var ekki á lagalista heldur líka var minna að sjá af stóru sólóunum hjá Eric. Þýsku aðdáendurnir skelltu skuldinni á Delaney & Bonnie og kenndu þeim um að Blind Faith hefði liðast í sundur. Í Köln varð að fresta tónleikunum eftir aðeins 4 lög vegna gífurlegrar óánægju áheyrenda sem hrópuðu, púuðu og kölluðu að hljómsveitinni. Eric var næst gráti.
Hljómsveitin snéri heim á leið að nýju og þá aftur á Hurtwood Edge til að undirbúa sig fyrir hljómleikaferð um Bretland. Gagnrýnendur eða blaðamenn og aðrir fylgifiskar sem heimsóttu sveitaróðalið fóru heim með þá tilfinningu að Eric væri gestur í sínu eigin húsi. Hans glæsilega ítalska-Edwardian höfðingjasetur fór að taka á sig mynd sukkseturs Edgars Allan Poe. Dýrmætt plötusafn hans var nánast ónýtt vegna vatns og rafmagnskemmda, hundarnir migu á rándýru gólfmotturnar á meðan Suðurríkjasteikurnar með barkarkýlinn, Delaney & Bonnie kölluðu í reykjarmekkinum “Af hverju eru rótararnir ekki komnir með drykkina”. Það var samdóma álit á milli Bresku fjölmiðlamannanna að Delaney & Bonnie væru einungis að græða á hentugum vinasamböndum.
Þrátt fyrir allt tókst að gera góða “Live plötu” (Delaney and Bonnie with Eric Clapton) og Delaney hjálpaði án nokkurs vafa Eric að finna sjálfstraustið til frekari afkasta. Hans fyrsta sóló plata , sem Tom Dowd stjórnaði sem nefndist Eric Clapton var hljóðrituð í LA í janúar 1970 með öllu D&B bandinu. Plötunni var lokið og hinn óákveði Eric snéri á ný til Englands í og við tók “session” vinna að krafti.
Í Ameríku var hallaruppreisn í gangi innan vébanda D&B. Ósamkomulag varðandi peninga varð til þess að allt gengið sameinaðist Leon Russell við að ganga til liðs við Joe Cocker's Mad Dog Englishmen túrinn. Einungis Bobby Whitlock var eftir en hann varð líka sífellt þreyttari, enda ýmis ágreiningsefni við að eiga m.a fjármál: “Ég hafði aðeins of mikið af sona hjónamiðlurum í túrunum”, sagði hann. Hann hringdi þá í Steve Cropper, læriföður sinn sem sagði honum:“Af hverju hringir þú ekki í Eric og ferð og verður með honum í smá tíma?” “Ég tók næsta flug út og ég held að Eric hafi ekki átt von að sjá mig. En við fórum að semja saman lög og sögðum Robert Stigwood að við vildum setja saman hljómsveit” Að loknum Joe Cocker túrnum hóaði Bobby Whitlock í félaga sína, bassaleikarann Carl Radle og trommarann Jim Gordon til að setja saman hljómsveit ásamt Clapton. Þeir stilltu saman strengi sína og það var á þessum hljómsveitaræfingum sem þeir fóru að tengjast sem hljómsveit. Reyndar var George Harrison búin að bjóða Jim að spila á fyrstu sólóskífu sinni, All Things Must Pass.
Hin nýja hljómsveit spilaði síðan í fyrsta skipti í Lyceum Theatre í London 14 júní, 1970 undir nafninu Eric Clapton og vinir. Hljómsveitin var ónefnd þegar þarna er komið við sögu og nafnið Derek & The Dominos varð til fyrir slysni eftir því sem heimildamenn vitna til um. En þrátt fyrir það tók hljómsveitin upp þetta nafn og héldu í túr þar sem þeir spiluðu á litlum klúbbum í Englandi og tók Clapton uppá því að spila nafnlaust þar sem hann var orðin þreyttur á frægðinni sem hafði fylgt honum í Cream og Blind Faith.
Bobby og Eric höfðu verið að spila saman í Hurtwood Edge, að reyna setja saman lög, þ.á.m hraða útgáfu af þeirra fyrstu smáskífu, Tell The Truth sem var stjórnað af Phil Spector í Harrison upptökunum. En um leið og hún var gefin út í september 1970 var hún dregin til baka. “Okkur líkaði hún ekki,” sagði Whitlock. “Hún var yfirpródúseruð og alltof ”Spectorleg“. Við vildum engin blásturshljóðfæri eða stelpuraddir, ekkert svoleiðis.” sagði hann einnig.
Haustið 1970 í Criteria Studios í Miami undir handleiðslu Tom Dowd, hljóðritaði hljómsveitin Layla and Other Assorted Love Songs, tvöfald albúm sem í dag er af mörgum talið meistaraverk Eric Claptons. Mest af innihaldinu (sem varð fljótt útvarpshæft) var samið til Pattie Boyd sem var gift besta vini hans George Harrison. Það var samt ekki fyrr en nokkrum árum seinna að Pattie féllst á framhjáhald og árið 1974 flutti hún inn til Claptons og þau gengu síðan í hjónaband 1979 en skildu fljótlega.
Þegar nokkrir dagar voru liðnir af Laylu upptökunum bauð Dowd (sem var einnig um þessar mundir að stjórna plötu Allmans Brothers, Idlewild South) Eric Clapton að koma á tónleika með þeim í Miami. Það var á þessum tónleikum sem Duane Allman og Eric Clapton komust í kynni við hvorn annan. Næsta dag kom Duane í stúdíóið og urðu hann og Clapton strax hinir mestu mátar. Ekki leið á löngu þangað til þeir félagar hófu að spila saman, skiptast á sólóum, gíturum og einfaldlega skemmtu sér konunglega. Höfðu mikla aðdáun á hvor öðrum, ekki síst tækni og leikni hvors annars. Þeir spiluðu þarna í 15 til 18 klukkutíma á fyrsta stefnumótinu.(Duane Allman - Eric Clapton - Guitar Jam)
Þessa Jam IV.MP3spilamennsku má finna á öðrum geisladisknum af The Layla Sessions: 20TH Anniversary Edition. Eftir þetta bauð Clapton, Allman að gerast fimmti og síðasti meðlimur Dominos. Þegar þeir hittust höfðu Dominos menn þá þegar hljóðritað þrjú lög, (I Looked Away, Bell Bottom Blues og Keep On Growing). Allman kom síðan inn í fjórða laginu Nobody Knows You When You're Down And Out.mp3 og eftir það spilaði hann ásamt Clapton sem aðalgítarleikari og “slide” það sem eftir var af plötunni. Margir vilja meina að Clapton hafi spilað best með öðrum gítarleikara, þá hafi hann verið á tánum og ekki spilað losaralega eða letilega. Þannig hafi það verið verið raunin þegar hann spilaði með Duane Allman.
Layla breiðskífan var hljóðrituð með 5 meðlimum, sem má þakka skyndilegri og ófyrirsjánlegri þáttöku gítarleikarans Duane Allmans,. Þrátt fyrir að Clapton sé aðallega orðaður við plötuna þá var hún sannarlega hópvinna. Einungis tvö af fjórtán lögum eru skrifuð af Clapton einum, annars voru önnur lög skrifuð með Whitlock. Síðan bætast við töku-blús númer eins og “Nobody Knows You When You're Down And Out” eftir Jimmy Cox, “Have You Ever Loved A Woman” eftir Billy Myles og Key To The Highway.MP3 eftir William Broonzy.
Umtalaðasta og jafnframt vinsælasta lagið af plötunni, Layla var hljóðrituð í tveim aðskildum lotum. Opnunar gítarhlutinn var hljóðritaður fyrst en annar gítarhlutinn síðar. Clapton fannst að það vantaði lokahluta á lagið þannig að svarið kom þegar hann heyrði óvart píanóverk sem Jim Gordon var að spila. Hann var að æfa fyrir sólóplötu sem hann var með í pípunum. Þetta var nákvæmlega það sem Clapton þurfti í enda lagsins. Þannig að hann spurði Gordon hvort mögulegt væri að fá þetta fyrir endann á Laylu. Gordon samþykkti þannig að lagið var fullkomnað.
Þegar platan kom síðan út í Desember 1970 þá náði hún ekki inná topp 10 listann í Bandaríkjunum og komst ekki einu sinni inná lista í Bretlandi. Hún fékk litla athygli en þegar Layla var gefin út sem smáskífa 1972 varð smáskífan algjör smellur. Hún náði í tíunda sæti í Bandaríkjunum. og það sjöunda í Bretlandi. Síðan átti lagið eftir að ná aftur inn á lista 1982.
Eftir upptökurnar á Laylu lagði hljómsveitin í hljómleikaför um Bandaríkin þar sem fíkniefnaneysla og vandræði fylgdu þeim í hvert fótmál. Duane var ekki á meðal liðsmanna en hann hafði gengið á ný til liðs við félaga sína Allman Brothers Band eftir upptökurnar. Samt sem áður spilaði hann með Derek & The Dominos í Curtis Hixon Hall í Tampa, Flórída 1 desember 1970 og kvöldið eftir í Onondaga County War Memorial í Syracuse, New York. Eftir því sem menn vita best þ.á.m á bootleg upptökum frá tónleikunum í Florída þá voru báðir tónleikarnir með Duane innanborðs stórslys. Bobby Whitlock minnist fíkniefna ástandsins svona: “Við vorum ekki með lítið af hverju. Það voru engin grömm í gangi, skulum orða þetta frekar svona. Tom (Dowd) trúði ekki sínum eigin augum, hvernig við létum bara þessa stóru poka liggja um allt. Ég skammast mín næstum að tala um það, en þetta er sannleikurinn. Þetta var hrikalegt hvað við vorum að gera, en við vorum ungir og vitlausir og vissum ekki betur. Kókaín, heróin, og Johnny Walker whisky það var nú það” .Þrátt fyrir fíkniefnaneysluna í þessari ferð kom út mjög vel heppnuð “Live” tvöfalt albúm, In Concert sem var tekin upp á nokkrum tónleikum í Fillmore East í New York. Sex af upptökunum af þessum tónleikum voru síðar gefnar út í bætum hljómgæðum m.a lagið Got to Get Better in a Little While.mp3 ásamt fleiri lögum frá sömu tónleikum sem gefið var út sem Live at Fillmore sem kom út 1994.
Áföll dundu yfir grúppuna á þessum tímabili. Í Laylu upptökunum var Clapton illa haldinn út af dauða vinar síns og keppinautar, Jimi Hendrix. Átta dögum dauða hans hljóðritaði hljómsveitin sína útgáfu af Little Wing, sem líta verður sem virðingarvott um Jimi. Einu ári seinna lést Duane Allman í mótorhjólaslysi. Clapton tók þetta persónulega, sem jók enn meira við fíkniefnaneyslu hans og þunglyndi. Um þessa reynslu sagði Clapton:“Við vorum svona þykjustuband. Við földum okkur allir sem einn. Þetta gat aldrei gengið. Ég varð að komast út úr þessum vítahring og viðurkenna að ég væri ég sjálfur. Þetta var ástæðan fyrir gerð plötunnar, svo ég gæti skrifað lög og jafnvel notað annað nafn fyrir Pattie. Svo Derek og Layla var engan veginn raunverulegt.”
Hljómsveitin sundraðist í London rétt áður en þeir gátu klárað aðra plötu sína. Síðar í viðtali við tónlistargagnrýnandan Robert Palmer sagði Clapton að platan hafi verið komin vel á veg þegar þeir þurftu einfaldlega að hætta vegna ofsóknaræðis og spennu liðsmanna. Bassaleikarinn Radle vann áfram með Clapton næstu árin, en viðskilnaðurinn milli Claptons og Whitlock varð bitrari. Radle lést af áfengiseitrun 1980 og Jim Gordon sem var ógreindur geðklofasjúklingur drap móður sína með hamri nokkrum árum seinna. Hann var settur á geðsjúkrahús þar sem hann er enn í dag. Eftir þessar hremmingar hætti Eric Clapton að túra og hljóðrita til þess að takast á við örtvaxandi heróínvanda sinn.
Þessi grein fjallar um súrt og sætt í lífi Eric Clapton og til að ljúka henni má segja að eina plata hljómsveitarinnar, Layla and Other Assorted Love Songs hefur þrátt fyrir lélega dóma og dræma sölu í byrjun farið tvisvar inná plötuvinsældarlistann, árin 1972 og 1982 og er í dag eins og áður kom fram álitin eitt besta framtak Eric Claptons. Upptökustjóri hljómsveitarinnar Tom Dowd sagði m.a. “hann að honum hefði fundist þessi plata væri það besta sem hann hefði verið þáttakandi í síðan ”The Genius of Ray Charles" var gerð. Layla and Other Assorted Love Songs er í dag alltaf að vera meira metinn að verðleikum og hefur verið valinn með bestu plöta allra tíma af sjónvarpsstöðinni VH1 (í 89 sæti) og tímaritinu Rolling Stone (í 115 sæti)
Birtist á tónlistargrúsksíðunni www.123.is/BMExpress