Halló
Hér fyrir neðan er ég búinn að skrifa fyrsta hlutann af 3 um ævi Freddie Mercury söngvara Queen.
Vonandi hafiði gaman af.
Farrokh Bulsara betur þekktur sem Freddie Mercury, fæddist árið 1946 þann 5 september í bæ sem hét Stone Town sem var á miðri afrísku smáeyjunni Zansibar.
Hann var kominn af persneskum ættum en báðir foreldrar hans þau Bomi og Jer Bulsara voru persnesk.
Faðir hans Bomi Bulsara vann sem gjaldkeri hjá breska ríkinu.
Árið 1952 þegar Freddie var 6 ára eignaðist hann yngri systur að nafni Kashmira.
Árið 1954 þegar Freddie var 8 ára fór hann í enskan heimavistarskóla sem var í Panchgani á Indlandi.
Þessi skóli hét St Peter's og það var þar sem að vinir hans byrjuðu að kalla hann Freddie, nafn sem foreldrar hans og ættingjar byrjuðu meira segja að nota líka!
St Peter´s var breskur skóli og því voru flestar íþróttir sem voru stundaðar þar breskar, Freddie hafði misjafna skoðun á þessum íþróttum en hann var til dæmis ekki hrifinn krikketi og þolhlaupi en aftur á móti var hann mjög hrifinn af spretthlaupi, boxi og hokkí.
Freddie var mikill íþróttamaður og þegar hann var 10 ára varð hann skólameistari í borðtennis.
Freddie var líka mjög góður listamaður, en hann elskaði list og hann teiknaði mikið af myndum fyrir vini og ættingja.
Freddie var góður íþróttamaður og góður listamaður en það má ekki gleyma því að hann var líka mjög hrifinn af tónlist. Hann var vanur að hlusta á plötur í plötuspilaranum sem fjölskyldan hans átti, þrátt fyrir það að flestar plöturnar innihéldu indverska tónlist en inn á milli leyndust þó þekktar breskar og bandarískar plötur.
Freddie bjó einnig yfir miklum tónlistarhæfileikum en það var skólastjóri St Peter´s sem uppgötvaði þessa tónlistarhæfileika hans og skrifaði því bréf til foreldra hans þar sem stóð að ef þau gætu borgað meiri pening til skólans þá væri hægt að setja hann í tónlistarnám.
Það var gert og Freddie fékk píanókennslu og var settur í skólakórinn.
Hann elskaði píanótímana sína og lagði mikla stund á þá og undirbjó sig mikið fyrir þá.
Þegar að hann var 12 ára kláraði hann St. Peter´s með stæl með því að vinna verðlaun fyrir að vera fjölhæfasti nemandi skólans.
Sama ár byrjaði hann líka í fyrstu hljómsveitinni sinni en í henni voru 4 skólabræður hans þeir Derrick Branche, Bruce Murray, Farang Irani og Victory Rana.
The Hectics var hljómsveitin kölluð og lék Freddie á píanó í henni og spiluðu þeir félagar reglulega á útihátíðum og skólaböllum en það sem gerði The Hectics merkilegri en aðrar rokkhljómsveitir frá skóla Freddie´s var að hún var fyrsta rokkhljómsveitin í sögu St Peter´s.
Freddie fór svo í St Mary´s Highschool árið 1958 en St Mary´s var staddur á Indlandi eins og St Peter´s.
Árið 1962 kláraði Freddie St Mary´s og sneri heim til Zansibar þar bjó hann í 2 ár eða til í ársins 1964.
Hann gerði lítið af frásagnarverðum hlutum á þessum árum og tók lífinu bara með ró og eyddi mest öllum tíma sínum með vinum og fjölskyldu.
Í byrjun ársins 1964 neyddist Freddie og fjölskyldan hans til þess að flýja til Englands vegna byltingar sem hafði byrjað á Zansibar.
Þessi bylting endaði þannig að uppreisnarandinn steypti Sultan Jamshid bin Abdullah af stóli, sem gerði það að verkum að lýðveldi varð til á Zansibar og það gerði það einnig að verkum að 3 mánuðum eftir uppreisnina sameinuðust Zansibar og austur afríska smáríkið Tanganyika til þess að stofna ríkið Tansaníu.
Þegar Freddie og fjölskylda voru komin til Englands bjuggu þau til að byrja með hjá ættingjum sínum í Feldham, en þar bjuggu þau þangað til að þau fundu lítið heimili í Feldham.
Freddie tók svo þá ákvörðun að læra grafíska list og hönnun en til þess þurfti hann að minnsta kosti hafa náð einkunn A í því viðfangsefni.
Til þess að reyna að ná einkunn A skráði hann sig í tækniskóla hjá Isleworth.
Hann var duglegur að læra og á endanum náði hann léttilega einkunn A.
Einkunnin hans og hæfileikar urðu til þess að í september árið 1966 fetaði Freddie í fótspor gítarleikara The Who, Peter Townsend og gekk í skólann Ealing College Of Art.
Freddie var fljótur að leigja sér íbúð og þegar hann hafði fengið inngöngu í Ealing College Of Art leigði hann íbúð hjá vini sínum, Chris Smith.
Árið 1967 birtist bandarískur gítarleikari á sjónarsviðið hann kallaði sig Hendrix ,Jimi Hendrix og varð hann átrúnaðargoð margra það á meðal Freddie´s.
Á þessum tíma þjálfaði Freddie hæfileika sína í að teikna með því að eyða miklum tíma í að teikna átrúnaðargoð sitt og notaði hann myndir sem hann hafi teiknað af honum til þess að innrétta íbúðina sem hann bjó í.
Ári eftir að Freddie gekk í Ealing College Of Art kom annar nemandi í bekkinn hans, þessi nemandi hét Tim Staffel og urðu hann og Freddie góðir vinir.
Tim Staffel var á þessum tíma aðalsöngvarinn í hljómsveitinni “1984” en í þessari hljómsveit var meðal annars verðandi gítarleikari Queen, Brian May en May var leiðtogi hljómsveitarinnar “1984”.
Þegar að Brian May fékk nóg af áhugamennskunni í hljómsveitinni “1984” hætti May og bað Tim Staffel að stofna nýja hljómsveit með sér, þessi hljómsveit átti að heita “Smile”.
Þeir gerðu það og mánuði seinna höfðu þeir fundið trommuleikara, þessi trommuleikari hét Roger Meddows Taylor, og kom hann í hljómsveitina í lok ársins 1967.
Tim vissi af miklum áhuga Freddie´s á tónlist og bauð honum þess vegna á hljómsveitaræfingar hjá Smile og það varð til þess að þessir 4 tónlistarmenn urðu góðir vinir.
Þessir tímar í lífi Freddie´s voru honum innblástur og fljótt var hann farinn að spila tónlist aftur, í fyrsta sinn síðan hann kom til Englands.
Eina nótt bankaði löggan uppá vegna þessa að nágrannarnir kvörtuðu yfir að tónlistin úr íbúðinni væri of há og hann ákvað að búa til smá te handa þeim…
Í júní árið 1969 kláraði Freddie námið sitt í Ealing College Of Art með gráðu í grafískri list og hönnun.
Freddie flutti svo í íbúð vinar síns Roger Taylor´s og þetta sumar opnuðu þeir sölubás á markaði í Kensington þar sem þeir seldu föt og listaverk eftir Freddie og fyrrverandi bekkjasystkini hans.
Sumarið 1969 var Freddie kynntur fyrir Mike Bersin gítarleikara, John Taylor bassaleikara og Mick Smith trommuleikara en þeir voru í hljómsveitinni Ibex.
Ibex var í leit að söngvara og buðu þeir Freddie í hljómsveitina.
Ákafinn í Freddie um að gera þennan tónlistarferill sinn að einhverju alvöru var svo mikill að eftir 10 daga hafði hann lært öll lög hljómsveitarinnar, samið nokkur lög fyrir hljómsveitina og ferðast með þeim til Bolton til þess að spila með þeim á tónleikum þar.
Frumraun Freddie´s á tónleikum fyrir framan almenning tókst vel og var sagt frá þeim í fréttunum í Bolton.
Eitt sinn þegar að Freddie var á tónleikum með Ibex, brotnaði míkrófónstandurinn í tvennt á miðjum tónleikum. Hann kláraði tónleikana og notaði aðeins efri hlutann á standinum. Eftir það, uppgötvaði að honum líkaði miklu betur við hann svona svo að framvegis notaði hann míkrófóninn alltaf þannig.
Í október varð svo árekstur á milli Freddie´s og annarra í hljómsveitinni en þannig stóð á því að Freddie vildi endurnefna hljómsveitina Wreckage en enginn var spenntur fyrir því.
Freddie ákvað því að gera eitthvað í málunum svo að hann hringdi í alla meðlimina og sagði að hinir í hljómsveitinni væru til í að endurnefna hljómsveitina Wreckage og allir svöruðu því að þeir væru til í það ef að hinir væru það, en þegar þeir fóru að tala saman um þetta kom í ljós að Freddie hefði sagt það sama við alla meðlimi hljómsveitarinnar.
Nafnaskiptin fóru ekki vel í hina meðlimina og það endaði þannig að trommuleikarinn Mike Smith hætti í hljómsveitinni og Richard Thompson fyrrverandi trommuleikari “1984” tók við af honum.
Wreckage eða Ibex varð aldrei söm eftir þetta og hljómsveitin var hætt áður en árið var liðið.
Freddie fór því að leita að nýrri hljómsveit og þegar hann frétti af því að hljómsveitinni Sour Milk Sea vantaði söngvara ákvað hann að sækja um.
Sour Milk Sea bauð honum starfið og undir lok ársins 1969 var Freddie Bulsara (eins og hann kallaði sig á þeim tíma) orðinn aðalsöngvari hljómsveitarinnar Sour Milk Sea.
Í hljómsveitinni voru Chris Chesney gítarleikari og söngvari, Paul Milan bassaleikari, Jeremy Gallop rythma gítarleikari og Rob Tyrell trommuleikari.
Hljómsveitin entist ekki lengi eða bara í 2 mánuði því að þegar Jeremy Gallop sá enga framtíð í hljómsveitinni og ákvað að hætta gat hljómsveitin ekki haldið áfram þar sem að hann átti næstum því öll hljóðfærin og Freddie var því enn einu sinni án hljómsveitar og frægðar.
Tim Staffel hafði á þessum tíma ákveðið að reyna við frægðina með því að ganga í hljómsveitina Humpy Bong þar sem að hann hélt að Smile ætti engan möguleika á því að verða alvöru hljómsveit.
Brian og Roger voru því 2 eftir og þeir ætluðu að gefast upp þegar að Freddie kom til þeirra og sagði þeim að gefast ekki upp, þeir gætu þetta og að hann gæti komið í stað Tim Staffel´s og að þeir myndu finna bassaleikara og æfa saman og stofna nýja hljómsveit upp úr því sem eftir var af Smile. Hann sagði líka að hann vildi ekki spila á einhverjum tilgangslausum tónleikum sem að enginn myndi hlusta á og tala um (eins og hlutirnir höfðu verið í fyrri hljómsveitum þeirra) hann vildi gera þetta að atvinnu þeirra!
Þannig sannfærði Freddie, Brian og Roger um það að stofna hljómsveitina Queen (en nafnið var hugmynd Freddie´s) og næsta árið eyddi hljómsveitin tímanum í að æfa og prufa bassaleikara.
Eftir að hafa prufað nokkra bassaleikara fundu þeir John Deacon og hann var fljótt ráðinn og ein stærsta hljómsveit 8 og 9 áratugarins “Queen” var orðin til.
Heimildir
Anwers.com
Freddie.ru
Wilkipedia.org
nndb.com
Queenonline.com
In Their Own Words – Queen
Easy.go.is/queenie
Ég vil svo þakka Bijou sérstaklega fyrir ómetanlega hjálp og leiðréttingar!
Ég biðst afsökunar á öllum stafsetningar, málfræði og staðreyndarvillum.
Allar leiðréttingar og ábendingar eru vel þegnar.
Ástarkv. Huy