Tónleikarnir fyrir Bangladesh
My friend came to me with sadness in his eyes ,
Told me that he wanted help
Before his country dies
(George Harrison 1943-2001)
Á ýmsum stöðum í heiminum ríkir fátækt. Á ýmsum stöðum þykir ekki sjálfsagt að fá vatn né mat. Hins vegar var það aðeins í New York borg, nánar til tekið í Madison Square Garden þann 1. ágúst árið 1971, sem George Harrison hélt eina merkilegustu tónleika tónlistarsögunnar. Þar voru samankomnir ýmsir félagar Harrison, t.d. Ringo Starr, Eric Clapton, Bob Dylan, Hans Voorman og margir fleiri. Á tónleikunum spilaði einnig kvartett frá Indlandi, leiddur af Ravi Shankar, góðvini Harrison og líklega frægasta sítarleikara í heimi. Tilgangur tónleikanna var einfaldur; að safna peningum til að hjálpa þjóð Bangladesh.
Hugmyndina um að halda slíka styrktartónleika fékk Harrison þegar góðvinur hans, Ravi Shankar, kom til hans og lét í ljós áhyggjur hans yfir fátækt Bangladesh. George Harrison var maður mikilla vona, hann efaðist aldrei um að geta orðið að liði við að „bjarga“ Bangladesh, sem í dag er eitt þéttbýlasta ríki heims. Hversu mikið gagn fjármunirnirnir, sem söfnuðust við tónleikahöldin, og seinna sölu á plötu sem upptökum frá tónleikunum, gerðu í raun og veru, þá var það líka bara framlagið sjálft sem hafði svo mikið að segja. Á þessum tímum var landið ekki sjálfstætt heldur tilheyrði það Pakistan. Það öðlaðist sjálfstæði þann 16. desember 1971, sama ár og tónleikarnir voru haldnir. Það að allar þessi stjörnur, með himinhátt sjálfsálit, hafi komið saman og myndað þessa fallegu og einlægu hljómleika, er í raun stórkostlegt út af fyrir sig.
Tónleikarnir voru upphaf að ákveðnu tímabili í tónlistarsögunni. Þetta eru sagðir vera fyrstu góðgerðartónleikarnir þar sem ofurstjörnur tónlistarinnar komu saman til að afla fé gegn fátæktinni. Seinna átti t.d. Bob Geldof eftir að verða fyrir áhrifum Harrison og skipuleggja til Live Aid-og Live8-tónleikanna. Eins og Clapton orðaði það, þá var þetta dagurinn sem allir tónlistarmennirnir sem þarna voru saman komnir, gátu verið stoltir af því að vera tónlistarmenn.
Þrátt fyrir að ekki megi gleyma tilgangi tónleikanna tveggja, sem voru báðir haldnir sama dag, þá er mér óhætt að segja að tónleikarnir séu hið mesta konfekt fyrir margan áhugamanninn um tónlist. Sem einn slíkur, þá eru þessir tónleikar í þvílíku uppáhaldi hjá mér. Allt sem tengist tónleikunum, umgjörðin, tónlistarmennirnir, lögin, hugmyndin á bak við þetta, tilgangurinn, þykir mér vera svo stórkostlegt. Ég gæfi allt til að geta farið aftur í tímann og upplifað það að sitja í Madison Square Garden og hlusta á George Harrison og félaga spila til styrktar Bangladesh. Þar sem það er ekki hægt, ennþá í það minnsta, þá verð ég að láta myndbandsupptökur duga. Ég hvet alla sem hafa áhuga á tónlist til að kynna sér þessa frábæru tónleika.
Til allrar óhamingju er George Harrison ekki á meðal vor í dag. Hann lést í lok nóvember árið 2001 eftir langa baráttu við krabbamein. Ég kýs að ljúka þessari grein um Tónleikana fyrir Bangladesh með því að minnast Harrison. Að sögn vina og vandamanna hans var sagt að hann hafi aldrei hætt að trúa því að „draumur 7. áratugarins“ – um frið á jörð og að heimurinn yrði betri staður, myndi einn daginn rætast. Ekki þykir mér líklegt að það eigi eftir að gerast í bráð, á meðan að styrjaldir fara fram hér og þar um heiminn. Það sakar þó ekki að eiga von.