Ég ákvað að skrifa um eina af mínum uppáhalds plötum… og já… Gjöriði svo vel:
Hljómsveitin
Árið 1964 var ein stærsta og frægast hljómsveit allra tíma stofnuð, Pink Floyd. Meðlimir hennar voru:
-Roger Keith Barrett (kallaður Syd Barrett), söngvari, gítarleikari og aðal lagasmiður hljómsveitarinnar.
-Roger Waters, bassaleikari og söngvari.
-Richard Wright, hljómborðsleikari og söngvari.
-Nick Mason, trommuleikari.
Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu árið 1967, en hana kölluðu þeir Piper at the Gates of Dawn. Platan heppnaðist mjög vel hjá þeim og komst hún inn á Topp 10 listann í Bretlandi. Í kjölfar velgengi plötunnar fór hljómsveitin á tónleikaferðalag um Bandaríkin. Um þær mundir fóru veikindi Syds að koma í ljós. Hann var háður LSD og djúpt sokkinn í notkun þess. Það kom meira að segja fyrir að hann hvorki söng né spilaði á tónleikum. Þetta gekk svona fyrir sig í þó nokkuð langan tíma, þar til að hljómsveitarmeðlimirnir tóku nýjan tónlistarmann inn í hljómsveitina, David Gilmour. David var mjög fær gítarleikari, sem bæði Barrett og Waters höfðu gengið í skóla með. David var að sjálfsögðu gerður aðal gítarleikari hljómsveitarinnar, vegna þess að Syd var alveg ófær um að spila. Árið 1968 gaf hljómsveitin svo út plötuna A Saucerful of Secrets. Syd tók mjög lítinn þátt í að búa til plötuna, og samdi aðeins eitt lag af sjö. Þrátt fyrir það fékk platan góðar viðtökur. Samband Syds við hljómsveitina entist þó ekki lengi, og árið 1969 var hann endanlega rekinn úr Pink Floyd.
Dark Side of the Moon
Eftir að Syd Barrett varð geðveikur var upplausnarástand innan hljómsveitarinnar, og mikil breyting varð á tónlistinni sem þeir spiluðu. Roger fór að semja öll lögin, og David skreytti þau með stórkostlegu gítarspili. 1969 gáfu þeir svo út plötuna Ummagumma. Árið eftir gáfu þeir út plötuna Atom Heart Mother, og svo árið eftir það, árið 1971, gáfu þeir út plötuna Meddle. Allar þrjár plöturnar fengu mjög góðar viðtökur, og aðdáendur Pink Floyd urðu sífellt fleiri.
Samt sem áður kom stóra stund hljómsveitarinnar ekki fyrr en tvem árum seinna, þegar platan The Dark Side of the Moon kom út. Platan hét upprunalega Eclipse: A Piece for Assorted Lunatics, og var það tónverk sem hljómsveitin hafðu flutt á tónleikaferðalagi nokkrum mánuðum áður en tökur á verkinu hófust, 1972. Verkið var tekið upp, með ýmsum breytingum, í Abbey Road Studios í London, á tímabilinu júní 1972 til janúars 1973. Upptökustjóri plötunnar var Alan Parsons og sá sem annaðist hljóðblöndun var Chris Thomas.
Tónverkið sjálft fjallar einfaldlega um líf í nútíma veröldinni og glímu einstaklinga við vandamál í honum. Platan var svo endanlega gefin út í mars 1973.
Lögin á plötunni
Speak to me: Speak to me er fyrsta lag plötunnar. Satt að segja er allt lagið einungis byggt upp af alls kyns hljóðum og ,,effektum”. Þrátt fyrir að Nick Mason sé skráður einn fyrir laginu, segist Roger hafa samið það.
Breathe: Árið 1970 var Roger Waters að vinna með tónlistarmanninum Ron Geesin að tónlist fyrir heimildarmyndina The Body. Þar samdi Roger lag sem gekk undir nafninu Breathe, og ætla má að þar hafi Roger fengið hugmynd sína af samnefndu lagi sínu á The Dark Side of the Moon. Lagið, sem sungið var af David Gilmour, á að tákna vonleysið sem felst í því að eltast við innantóm markmið lífsins.
On the run: Áður en platan sjálf kom út, þegar hljómsveitin flutti Eclipse: A Piece for Assorted Lunatics á tónleikaferðalagi, spiluðu þeir lag sem þeir kölluðu The Travel Section. Enginn af meðlimum hljómsveitarinnar var ánægður með verkið, svo þeir reyndu að breyta því eins og hægt var. Samt varð það ekki nógu gott. Eftir nokkurn tíma dró David fram hljóðgervil og prófaði sig áfram með nótur sem mynduðu síðar stef. Roger heyrði þetta og saman héldu þeir áfram að fikra sig áfram með stefið. Á endanum voru þeir komnir með lítið tónverk sem þeir kölluðu On the Run, sem varð svo seinna hluti af Dark Side of the Moon, en ekkert varð úr The Travel Section.
Time: Time og Money voru fyrstu lögin sem voru sérstaklega samin fyrir Dark Side of the Moon. Lagið byrjar á aragrúa af klukkum og bjöllum sem slá og hringja. Hringingarnar voru teknar upp og unnar af Alan Parsons. Í Time syngja bæði David og Roger, ásamt bakraddarsöngkonunum Doris Troy, Lesley Duncan, Liza Strike og Barry St. John.
The Great Gig in the Sky: The Great Gig in the Sky var fyrst ætlað að tákna það hvernig trú getur komið mönnum út í geðveiki (það var upprunalega kallað The Religion Theme), en seinna var þýðingunni breytt í „ótta manna við að deyja”, en þá var það kallað The Mortality Sequence. Að lokum var nafninu svo breytt í The Great Gig in the Sky. Við upptökurnar kom upp sú hugmynd að hafa kvenmanns söng í laginu og Clare Torry var fengin í verkið. Einu fyrirmæli sem Clare fékk voru að hún ætti að hugsa um eitthvað hryllilegt á meðan hún væri að tóna lagið. Þegar hún kom út úr upptökusalnum að loknum söngnum fannst henni að þetta hefði mistekist hræðilega, en hljómsveitarmeðlimirnir voru á allt öðru máli.
Money: Þegar Roger Waters leyfði hinum hljómsveitarmeðlimunum fyrst að heyra lagið var það nánast fullgert. Money var eitt af því sem gerði plötuna fræga. Money fjallar að sjálfsögðu um peninga, en þeir eru undirstaða lífsgæðakapphlaupsinns og velgengni í lífinu. Lagið sjálft er mjög einstakt að því leiti að það er um það sem það varð: Velgengni. Lagið átti stærstan þátt í frægð plötunnar í Bandaríkjunum. Sá sem spilar á saxafón í laginu heitir Dick Parry, og var gamall vinur hljómsveitarinnar. Hann spilaði einnig í laginu Us and them.
Us and them: Satt best að segja var ekki öll tónlistin á The Dark Side of the Moon samin á tímabilinu 1972-1973. Elsta tónverkið á plötunni var frá árinu 1969, eftir Richard Wright og var það upprunalega kallað The Violence Sequence. Lagið átti að vera stef undir ofbeldisfullu atriði í hinni þekktu og umdeildu mynd Michalangelo Antonionis, Zabriskie Point, sem birtist á hvíta tjaldinu 1970. Lagið sem reyndar var aldrei notað í myndinni, fékk nafnið Us and them þegar það síðar birtist á Dark Side of the Moon.
Any Colour You Like: Any Colour You Like var eitt af fáum lögum The Dark Side of the Moon sem Waters tók ekki þátt í að semja. Áður en lagið var sett á diskinn var það kallað Dave's Scat Section, en það fékk síðar nafnið Any Colour You Like, en það var viðkvæði eins rótara hljómsveitarinnar þegar hann átti að gera eitthvað sem hann vildi ekki gera.
Brain Damage: Árið 1971, þegar hljómsveitin var að taka upp plötuna Meddle, samdi Roger lag um „A Lunatic on the Grass” sem hann kallaði Dark Side of the Moon. Lagið var eitt af því sem hvatti Roger til að gera plötuna The Dark Side of the Moon. Seinna fékk lagið nafnið Brain Damage og varð hluti af plötunni. Lagið fjallar aðallega um Syd Barrett og geðveiki hans.
Eclipse: Í fyrstu átti platan að enda á laginu Brain Damage, en hljómsveitinni fannst hún þurfa betri endi. Þess vegna samdi Roger lagið Eclipse. Þegar meðlimir hljómsveitarinnar voru að ræða saman um „hvað The Dark Side of the Moon væri”, sagði dyravörður Abbey Road Studios, Jerry O’Driscoll: „There is no dark side of the moon really. Matter of fact it's all dark” (MacDonald, 1996, bls: 207). Hljómsveitarmeðlimunum leist svo vel á þessa setningu, að þeir ákváðu að enda plötuna á henni.
Plötuumslagið
Þegar kom að því að búa til plötuumslagið var gamall vinur Syd Barretts, Storm Thorgerson, fenginn í verkið. Storm leiddi hönnunar hóp sem bar nafnið Hipgnosis, og hafði oft unnið með hljómsveitinni við hönnun umslaga. Einnig vann maður að nafni George Hardie við listræna hönnun plötuumslagsins.
Framhlið umslagsins er byggð upp af þremur hugmyndum. Í fyrsta lagi var það ljósasýning, en það var eitt af því sem einkenndi Pink Floyd á þessum tíma. Í öðru lagi bað Richard um að myndin yrði hrein, einföld, falleg og listræn, en samt ekki að hún liti út eins og ljósmynd (Thorgeirsson, 2003). Í þriðja lagi innihald textanna, þ.e.a.s. græðgi, metnað og geðveiki. Nú á dögum er þetta eitt þekktasta plötuhulstur í heimi.
Viðtökur
Þegar platan kom út árið 1973 fór hún beint á topp 10 listann í Bretlandi. Aftur á móti gekk salan í Bandaríkjunum í fyrstu illa, og hljómsveitin kenndi plötufyrirtækinu um. En eftir að þeir fengu sér nýjan umboðsaðila fór salan þar að ganga mikið betur. Platan náði þar gífurlegri hylli, sem og á flestum stöðum í heiminum og komst hún í fyrsta sæti á vinsældista Bandaríkjanna, og hélt sæti sínu þar í heila viku.
Í dag er platan skráð í Heimsmetabók Guinnesar fyrir að hafa verið 591 viku á hinum víðfræga og mikilsvirta Billboard lista, en það er listi yfir topp 200 vinsælustu plötur Bandaríkjanna. Engri annarri plötu í heiminum hefur tekist að vera jafnlengi á listanum og henni.
Lokaorð
Hljómsveitin starfar ekki lengur, en kom þó saman í fyrsta skiptið í 20 ár á Live Aid hátíðinni sumarið 2005. Þess má geta að þar spiluðu þeir 2 af 10 lögum Dark Side of the Moon: Breathe og Money.
Árið 2003 var haldið upp á þrítugs afmæli Dark Side of the Moon með því að gefa út endurgerða útgáfu af þessari víðfrægu plötu, og komst hún þá enn á ný á vinsældarlistana.
Platan nýtur enn þann dag í dag mikilla vinsælda, og bætast sífellt fleiri aðdáendur í hópinn.