Um daginn var ég staddur í verslunarmiðstöð í Kaupmannahöfn, fyrrverandi höfuðborg Íslands. Mér leið frekar illa, hafði skrallað fullmikið nóttina áður. Ég hafði villst í miðbænum, talið mig vera í Reykjavík og reynt við stelpur með gullnum setningum á borð við ,,So, what are you doing here in Iceland?“. Í þynnleika mínum ráfaði ég um í leit að einhverju sem gæti látið mér líða betur. Og þá rak ég augun í hana. Gullfalleg, stílhrein, gáfuleg og í glæsilegri kápu. Chronicles Volume One - Autobiography by Bob Dylan, gefin út af Simon & Schuster. Ég greip bókina og kastaði skitnum 200 DKR í átt að afgreiðsludömunni. Svo labbaði ég á næsta matsölustað, pantaði bjór og byrjaði að fletta í gegnum bókina. Mér fór strax að líða betur.
Bókin er 293 bls. að lengd og algjörlega laus við myndskreytingar, að undanskilinni kápunni. Það hefur komið fram að bókin sé fyrsta bindi af þremur og er það af hinu góða. Bókin er hreint út sagt frábær og kærkomin tilbreyting frá þurrkuntulegum skólabókunum.
Karlinn er, líkt og í lögum sínum, frábær sögumaður. Það er varla dauður hluti í bókinni, það var helst þegar hann fer mjög ítarlega í tónfræði plötunnar Oh Mercy, sem ég gat lagt bókina frá mér, en ég sogaðist fljótt aftur að henni, líkt og kálfur að spena.
Skemmtilegast fannst mér þegar hann talar um æskuárin. Dylan fæddist í Duluth og ólst upp í Hibbing, báðir staðir í Minnesota. Þar voru mjög ,,íslenskar” aðstæður, veturinn og landslagið svipað og á Íslandi. Þannig fann maður ýmsar tengingar, t.d. þegar hann talar um að krakkar hafi skemmt sér við ,,bumper riding“ (ísl. að ,,teika”) og einnig er gaman að heyra um Leif Erickson Park í Duluth þar sem Dylan sótti kosningafund með foreldum sínum sem krakki.
Dylan hefur verið þekktur fyrir að vernda einkalíf sitt til hins ítrasta og því vakti útgáfa bókarinnar mikla athygli. Hann er einlægur og hreinskilinn í frásögn sinni, en passar sig þó á að segja ekki frá of miklu. T.d. talar hann alltaf um ,,my wife“ í bókinni þó það sé í raun ekki alltaf sama konan. Og um mótorhjólaslysið fræga ´66 hreytir hann úr sér einni setningu. Augljóst er að maðurinn hefur ekki átt auðvelda ævi eftir að hafa verið merktur sem ,,leiðtogi byltingarinnar” og fleiri fáránlegum titlum. Hann talar af viðbjóði um fólkið sem ofsótti hann á heimili hans í Woodstock að degi sem nóttu, uppi á þaki eða í garðinum. Ofsóknirnar náðu svo hámarki með hátíðinni ´69.
Hann viðurkennir svo loksins hvernig hann valdi Dylan-nafnið. Eftir mikla umhugsun ákvað hann sig eftir að hafa rekist á ljóð eftir welska ljóðskáldið Dylan Thomas. Litlu munaði að hann kallaði sig Robert Allyn.
Ég hvet því alla sem hafa minnstan áhuga á manninum að reyna að nálgast bókina. Ég gæti alveg trúað því að hún fáist t.a.m. í Máli og Menningu. Ég veit að Grjóni Kjartans, hinn íturvaxni helmingur Tvíhöfða grípur í hana á milli innkoma.
Og þá er bara að bíða næstu bókar, þangað til getur maður huggað sig við fyrsta sjónvarpsviðtalið í 19 ár. Viðtalið tekur Ed Bradley fyrir 60 mínútur og það hlýtur að vera hægt að sjá þetta í beinni á einhverri boltabúllunni….
,,I don´t eat something that´s one third rat, one third cat and one third dog. It just doesn´t taste right." - Dylan vitnar í Malcolm X þegar hann er spurður hvers vegna hann borði ekki svínakjöt