Ég vil taka fram að þessu grein er skrifuð eftir minni svo það gætu leynst staðreyndavillur.
Led Zeppelin var stofnuð í kringum 1968 eftir að Yardbirds hættu. Jimmy Page, gítarleikari Yardbirds fékk söngvarann Robert Plant, trommarann John Bonham og bassa og hljómborðsleikarann John Paul Johns. Hétu þeir fyrst The New Yardbirds en breyttist síðan í Led Zeppelin. Nafnið á víst að koma frá John Entwistle, bassaleikara The Who. Þeir héldu sína fyrstu tónleika með Led Zeppelin nafninu í Englandi 1968 og voru margir neikvæðir í garð þessarar nýju hljómsveitar.
Fyrsta plata þeirra Led Zeppelin I kom út í byrjun 1969 og voru þeir þá undir sterkum áhrifum frá Jimi Hendrix, Jeff Beck, Chuck Berry og Cream.
Platan innihélt m.a. lögin Good Times Bad Times, Babe I'm Gonna Leave You, sem þeir sömdu reyndar ekki sjálfir, Dazed and Confused og Communication Breakdown, allt eðallög. Á ‘koveri’ plötunnar var mynd af Hindenburg loftskipinu að springa. Þetta var góð rokkplata með blúsi á milli og varð hún mjög vinsæl og m.a. mest selda frumraun hljómsveitar í 7 ár. Skömmu síðar giftist Robert Plant kærustu sinni Maureen í London.
Þeir eru ekkert að bíða með að gefa út næstu plötu og kemur hún út í október sama ár. Hún fékk að sjálfsögðu nafnið Led Zeppelin II. Hún innihélt 9 lög á borð við Whole Lotta Love, Ramble On og Moby Dick sem inniheldur eitt flottasta trommusóló rokksögunnar. Hún var á toppnum í Bandaríkjunum í tæpa þrjá mánuði og þessi sveit var að heilla fólk upp úr skónum. Þó voru ekki allir sáttir við plötuna, talið var að mörg lög plötunnar hafi verið stolið. Í því samhengi er oftast talað um Whole Lotta Love og Lemon Song
Þann 22. júní árið 1970 kom sveitin og spilaði á tónleikum í Laugardals fyrir rokkþyrsta Íslendinga. Í október næsta ár kemur út ný plata frá sveitinni. Og auðvitað var Led Zeppelin III eina nafnið sem kom til greina. Platan byrjaði hressilega með hinu frábæra lagi Immigrant Song, sem var einmitt samið með Ísland í huga, en Íslandsferðin 1970 veitti þeim innblástur við textagerð. Síðan fylgdu lög eins og Celebration Day, Since I've Been Loving You, Tangerine og Bron-Y-Aur Stomp. Platan fékk slæmadóma gagnrýnenda en féll hins vegar vel í kramið hjá aðdáendum þeirra.
Nú voru þeir orðnir ein stærsta rokksveit heims og urðu að fylgja velgenginni eftir með nýrri plötu. Led Zeppelin IV, mín uppáhalds Zeppelin plata kom út í nóvember 1971 og innihélt mögnuð lög á borð við Black Dog, Rock And Roll, Battle Of Evermore, When The Levee Breaks og að lokum þeirra frægasta verk, snilldarlagið Stairway To Heaven sem er af mörgum talið besta lag sem gert hefur verið. Það er einnig mest spilaða lag í útvarpi frá upphafi. Led Zeppelin IV varð þeirra söluhæsta plata og hefur hún selst í u.þ.b. 20 milljónum eintaka.
Eftir það tóku Led Zeppelin sér hlé frá upptökum til að fara á tónleikaferðalög um heiminn. En í mars 1973 kom út ný plata frá þeim, sem hét þó ekki Led Zeppelin V heldur Houses of the Holy. Hún var fremur rólegri en Led Zeppelin IV en þrátt fyrir að vera ekki alveg í sama gæðaflokki og seinustu tvær er um stórgóða plötu að ræða og innihélt hún nokkur góð lög og ber þar helst að nefna The Song Remains the Same, The Rain Song og D'yer Mak'er. Þarna er talið að Led Zeppelin hafi verið á toppi ferils síns og að eftir þessa plötu hafi leiðin legið niður á við.
Eftir Houses Of The Holy kom ekki ný plata fyrr en í febrúar 1975 þar sem það fór tími í að stofna útgáfufyrirtækið Swan Song. Hún fékk heitið Physical Graffiti, Þetta var tvöfold plata sem innihélt 15 lög. Helstu lögin á plötuni eru Kashmir, Ten Years Gone og Trampled Under Foot. Eftir að hún kom út voru allar 6 plötur þeirra á topp 100 listanum í Bandaríkjunum. 4. ágúst 1975 lenti Plant í bílslysi ásamt eiginkonu sinni á eyjunni Rhodos við Grikkland. Þau slösuðust bæði alvarlega og eyddu nokkrum vikum saman á sjúkrahúsi.
Næsta plata, Presence kom út 1976 og var hún dálítil vonbrigði miðað við fyrri plötur þó góð lög eins og Achilles Last Stand leyndust inni á milli. Hún innihélt 7 misgóð lög. Og voru margir á því að þetta væri þeirra slakasta plata. Hún fékk vægast sagt skelfilega dóma tónlistargagnrýnanda. Meðan á Bandaríkjatúrnum 1977 stóð lést sonur Plants, Karac, vegna alvarlegrar magasýkingar. Þetta hafði mikil áhrif á hann og eyddi hann miklum tíma fjarri sveitinni og margir töldu að sveitin hefði sagt sitt síðasta. Í janúar 1979 eignaðist hann hins vegar annan son og það hjálpaði honum að komast yfir þetta áfall.
En í lok ársins 1978 hefja þeir upptökur á nýrri plötu. Árið 1979 kom út platan In Through the Out Door, hún var þónokkru skárri en Presence en þrátt fyrir það hafa þeir og geta gert betur en þetta. Platan byrjar á laginu In The Evening, sem er með betri lögum plötunnar. Önnur fín lög eru Fool In The Rain, Hot Dog og All My Love. En In The Evening og All My Love eru tileinkuð hinum látna syni Plants. En þetta reyndist vera þeirra síðasta stúdíóplata.
Árið 1980 voru þeir á tónleikaferðalagi í evrópu þegar John Bonham var fundinn látin í húsi Page 25. september. Hann hafði kafnað úr eiginn ælu. Sorglegur endir þessa frábæra trommara. Þetta varð til þess að sveitin hætti störfum, þeir sögðu að þeir gætu aldrei fundið neinn til að koma í stað Johns. Reyndar hafa þeir tekið nokkur gig með son John Bonhams á trommunum, Robert Plant fór m.a. í sólóferil og Jimmy Page remasteraði gömul Zeppelin lög sem komu út á tvöfalda disknum Remasters. En þeir eru enn í dag vinsælir um allan heim og eiga milljónir af aðdáendum.