Bítlarnir - enn að? Nokkur þurrkatíð hefur verið í gangi á “gullaldaráhugamálinu” undanfarið og því ákvað ég að skella inn svo sem einni grein.

Í lesbók Morgunblaðsins síðastliðinn laugardag (27.des) var heil opna (bls. 10-11) tileinkuð Bítlunum, þegar þrír aðdáendur voru fengnir til að skrifa stuttar greinar um goðin.

Þetta voru blaðamennirnir Arnar Eggert Thoroddsen og Grétar J. Guðmundsson og gítarleikarinn Pétur Jónasson.

Þar tala Arnar t.d um hversu miklir frumkvöðlar Bítlarnir voru, á meðan Grétar dregur upp mynd af hinu svokallaða “Bítlaæði”. Grein Péturs var ekkert ósviðpuð þar sem Bítlarnir voru dásamaðir og sagt var frá hljóðfærum þeirra svo dæmi séu tekin.

En það sem vakti undrun mína og umhugsun var fyrirsögn Péturs sem hljóðaði svona:“Snillingar saman, umtalsvert slakari hver í sínu lagi”.

Vissulega má færa rök fyrir því að efnið sem þeir fjórir sendu frá sér undir nafni Bítlanna sé mun betra en það sem þeir sendu frá sér hvor í sínu lagi. Ég ætla ekki að halda neinu slíku fram þar sem jafnvel þó flestir væru sammála mér, þá kæmi örugglega fram gamla klisjan um að “þetta væri bara mitt álit og ekki væri hægt að segja að eitt væri betra en annað”.

En það sem olli mér mestum heilabrotum þegar ég sá þessa grein, eða réttara sagt fyrirsögn, var hvort Bítlarnir væru enn að semja jafn rosaleg lög eins og “Let it be” og “A day in the life” ef þeir væru enn starfandi. Einnig hvort æðið í kringum þá væri ennþá jafn mikið.

Ég ímyndaði mér sem sagt að ef engin dauðsföll, Ono, rifrildi eða annað hefðu komið upp á og allir hljómsveitarmeðlimir í fullu fjöri og hæstánægðir með hvorn annan. Væru þeir þá enn jafn vinsælir og góðir og þeir voru(eru).

Rökin með því eru til dæmis þau að síðasta platan “Abbey Road” (var hún annars ekki tekin upp seinast, leiðréttið mig þá bara, ég er ekki sá fróðasti í Bítlafræðum) var stórgóð. Sú sem kom út á eftir henni “Let it be” en var tekin upp á undan (var þetta ekki annars þannig?) var einnig meistaraverk. Einnig eru tveir eftirlifandi meðlimir enn að og að gera ágætishluti, að ég held.

Hins vegar lenda mjög margir tónlistarmenn í því að staðna og hreinlega senda frá sér lélget efni og þrjóskast áfram í stað þess að hætta á toppnum. Þó eru dæmi um annað t.d. Bob Dylan senti frá sér plötuna “Love and theft” sem fékk mjög góða dóma (4 og 1/2 stjarna á allmusic.com).

Þess vegna spyr ég ykkur hugarar hvort Bítlarnir væru enn jafn góðir, ef alls ekkert hefði truflað þá.

Mitt álit: Nei, ég á einfaldlega bara mjög bágt með að trúa því.


Takk fyri