Dnab bluc straeh ylenol Sreppep Grs.
Einmanra-hjarta-klúbbssveit Pipars herforingja er súrasta plata frekar ósúrrar sveitar, Bítlanna. Ég man þegar ég var ellefu ára gutti eitthvað að gaufast í klassískum gítarleik, löngu áður en ég fór að hlusta eitthvað af ráði á bítlanna, og ég fann í grunnskólanum í Borgarnesi nótnablöð merkt þessu ótrúlega óþjála nafni. Þegar ég reyndi að spila nóturnar þá hljómaði það vægast sagt illa. Mér leist aldrei á nafnið eftir það.
Þessi þessi einu kynni mín (fyrir utan kannski þann alþekkta sannleik allra sem eru eldri en tvævetur að Lucy in the sky have diamonds sé ellessdjé-predikun bítlanna) héldu mér því lengi frá því að kynna mér þessa plötu eitthvað frekar, þótt að bítlaáhuginn væri vaknaður.
Loks var það fyrir fáum árum (þó nógu mörgum til þess að þetta væri fyrir tíma Napster og DC og þess alls) að ég loksins fann mig knúinn til þess koma höndum yfir þessa skífu eftir að hafa loksins heyrt Lucy ellessdjé predikunina spilaða, ekki bara talað um hana heldur virkilega spilaða, í ágætist hljómgæðum, í kjöraðstæðum fyrir svona sýrutónlist, og mér fannst eins og öllu væri snúið hvolf. Lucy er ekki besta lag plötunar, en að heyra það þá var brjáluð uppgötvun. Þegar ég hafði fengið frænda minn til þess að skrifa handa mér eintak (ég hef alltaf hlustað ólöglega á bítlatónlistina, enda hef ég ekkert samviskubit yfir því að stela frá barnaperranum Micael Jackson, auk þess sem að pabbi minn ku hafa keypt allar plöturnar sem unglingur þótt þær hafi nú löngu farið forgörðum (sökum vandræðaunglingsins eldri bróðir míns sem stal þeim og seldi þær langt undir kostnaðarverði fyrir landa, löngu áður en ég komst til vits og ára til þess að koma í veg fyrir það og löngu áður en að hann sjálfur gerðist ráðsettur fjölskyldufaðir), svo það má segja að ég sé með “öryggisafrit” af þessu upprunalegu plötum(ég mæli með að þið fari aftur upp og athugið hvert ég var komin í setningunni fyrir utan svigann til þess að missa ekki þráðinn)) þá setti ég hana í græjuna og kveikti á.
Alterígó bítlannar, einmannra-hjarta-klúbbssveit Pipars herforingja, byrjar á því að hita upp fyrir tilvonandi flugeldasýningu og er ótrúelgt að hugsa stemmingarinnar sem þeir ná að skapa strax í byrjun plötunnar. Ég var strax svo hrifinn af þessum skáldpersónum, hljómsveitinni veraldarvönu sem spilar eftir öll þessi ár frekar vegna spilagleðinnar en einhvers hégóma, og þeim heimi sem platan býður manni inn í að ég svolítið sem ég hafði aldrei áður né nokkurn tíman síðan gert og það er einfaldlega að slökkva ljósin, halla mér aftur og hlusta á alla plötuna út í gegn. Hvern tón, hvert orð, allt saman.
Þessi plata hitti mig svo rækilega í hjartastað að það er nánast guðdómlegt. Og enn þann dag í dag, eftir að ég löngu búin að ganga í gegnum það sársaukafulla ferli að sætta mig við það að hvorki þessi plata né bítlarnir eru gallalausir, hafa áhrifin samt lítið sem ekkert dvínað. Hún er svo yndislega gelgjuleg að það er yndislegt. Og þá meina ég það á góðan hátt. Skilaboð til allra gelgjanna þarna úti sem hlusta á j timberlake og guðmávitahvað: Srg. Peppers lonely hearts club band er ædolplata gelgjunnar, hún er fullkomin fyrir sjálfsentrískar gelgjur sem eru uppteknar af yfirborðslegum hlutum og því að vera í uppreisn gegn foreldrum sínum. Og hún er kannski megn um að víkka dálítið sjóndeildarhring manns og leyfa manni finna fyrir dýpri hlutum en maður (sem gelgja) hafði áður órað fyrir. Svo naív sixties hugmyndir sem eru samt svo heillandi og jafnvel djúpar, um ástina, mannfólkið, vímuefni og svo framvegis. Heimsmyndin er kannski ekki sú minnst brenglaðast sem mætti finna en samt nógu andskoti ævintýraleg til þess að hrífa alla þá með sem eru ekki enn þá alveg búnir að hefta neðri vörina við naflan á sér.
Nóg með það: Þar sem ég lá þarna meinvill myrkrinu þá rann tónlistin ljúflega inn um annað eyrað án þess að fara út um hitt. Skífan byrjaði eins og fyrr sagði á titillaginu þar sem maður fær smá nasaþef af einhverskonar atburði, endurkomu Einmannra-hjarta-klúbbssveit Pipars herforingja , alterígó Bítlanna, þar sem ríkir ölvuð stemming, mikið af lúðrum, mikið af hástemmdum fullyrðingum og enn hástemmdari fyrirheitum, lagið endar á því að kynnirinn býður okkur að hlusta á næsta lag
Lagið With a little help from my friend. Eins og svo oft þá er heitið afar lýsandi: Strákur kemst í gegnum daginn hvernig? Nú, auðvitað með dulítilli hljálp frá vinum sínum. Í hverju sú hjálp er fólgin er síðan annað mál en eflaust er hún margfólgin. Lang, lang, lang sterkasta hlið Bítlanna er þessi ótrúlegi hæfileiki þeirra til þess að semja grípandi melódíur, næstum einstakur í veraldar sögunni, og er þetta lag þar engin undanteknin. Auk þess er sándið (í stíl við plötuna) svona heillandi gelgjulegt, svo mér langar alltaf að knúsa einhverja stelpu þegar ég heyri þetta lag.
Lúsí himnum ofar á demanta. Ótrúlega skrýtin og skemmtileg sýra, og ef maður vissi ekki betur gæti maður haldið að ölvuninni sem hugsanlega fylgir áheyrninni líktist einhvernvegin ellessdjé vímu.
Geljan nær síðan hámarki í Getting better. ,,Unglingsárin einkennast oft af togstreitu og sívaxandi skilningi ungmennisins á einstaklingseðli sínu…” ÉG elska Getting better, þetta er mannbætandi lag, all hressilegt, og má auðveldlega búa til allskyns handahreyfingar til þess að skreyta dansa með, ef maður er að dansa við þetta lag á annað borð.
Í næsta lagi fara bítlarnir síðan að laga holu sem myndast hefur í þakið hjá þeim svo það hefur farið að leka. Svona heimspekilegar pælingar í söngleikjastíl blandast í auknu mæli við gelgjuna og myndhverfingarnar tollríða öllu. Takturinn er greinilegri en í fyrri lögum og lagið því kannski laglegra. Það er a.m.k. ekki ólaglegt. Svona nítjándualdar áhrif, eins og viktorísk sinfóníhljómsveit , spilandi í endurreisnarstíl, á sýrutrippi, fara að láta að kræla á sér í laginu en eiga eftir að aukast eftir því sem að líður á plötuna.
Eftir holulagfæringunum fer heimasætan að heiman. Heimskt er heimalið barn og þess vegna er ekki unda að “She’s leaving home”. Þótt titillinn sé með eindæmum gelgjulegur, og textinn það líka upp að vissu marki, þá virkar það dáldið fullþroskuð hljómsmíð, afar skýrt laglína, mikið af strengjum, mikið af trega, mikið af þrá. Eins og ekta kellingamynd.
Þá kemur uppáhaldslag mitt á skífunni. Being for benefit of Mr. Kite. John nokkur Lennon ku hafa grafið einhver staðar upp nítjándaraldar auglýsingu um Sirkús og er textin nær orðréttur úr henni. Hvernig hann smellur allur saman er hrein unun á að hlýða. Lagið er eins og spilað beint af apa úr líruboxi á götuhorni í skítugri nítjándualdar London & I like it. Þegar Hesturinn Henry fer síðan fyrir mitt lag að dansa í Valstakt þá fer allt í hausnum á mér á fleygiferð.
Viðinjúviðátjú er Harrison lag. Talandi um Harrison lag… Og kannski vegna þess að það er Harrison lag þá var það eina lagið á plötunni sem náði mér ekki við fyrstu hlustun. Það þurfti sjö hlustanir til. En þegar það loksins náði mér þá náði það mér líka svona gasalega. Indverski fílingurinn í Viðinjúviðátjú er eitt af uppáhalds bítlalögunum mínum.
When I’m sixty-four er ballaða. Og einstaklega góð ballaða. Alvöru Cartney ballaða. Þegar hann verður sektíuogfjagra (sem er ekkert svo langt þangað til) þá ætlar hann að sitja við arineldin með kellingunni (heitir hún ekki annars Heather og er fyrirsæta?), grila sykurpúða og segja sögur með barnabörnin Veru, Chuck og Dave sitjandi á hnjánum. Hann var greinilega með verulega stór læri. Eða gerði ráð fyrir að hann yrði með stór læri. Það er ekki slæmt að hafa markmiðin í lagi.
Lovely Rita er sísta lagið á plötunni. Það er fjörugt, skemmtilegt og algert síngalong. Kannski er það þess vegna sem ég hef aldrei fílað það: Ég hef aldrei getað fyllilega lært textan. Skamm.
Og þá er skífan því sem næst búin. Og þó, svona rétt í blálokin þá leyfa Bítlarnir sér að bjóða okkur öllum góðan daginn svona rétt fyrir sólarlagið. Mjög fjörugt góðadaginnsvonaréttfyrirsólarlagið-lag.
Í endinn fáum við að hitta hetjur kvöldisins aftur. Gæjarnir í Einmanra-hjarta-klúbbssveit Pipars herforingja. Þeir syngja sama stefið og í byrjun, en núna ti þess að kveðja, þakka fyrir sig, sýningin er búin og allir geta farið heim.
En þeir sem fara ekki heim fá að heyra eitt lag í viðbót. Hugsanlega besta lag Bítlanna. A day in a life. Um hversdagsleikann.
Lennon les um það í dagblaðinu að vinur þeirra, sálfur erfingi guinnes auðævanna (sem voru töluverp) hafi dáið í bílslysi. Svona hlutur sem getur alltaf gerst og egnin leið er að komast hjá. Maður verður bara í hversdagsleikanum að reyna líta fram hjá því, þótt að það skelli oft á manni eins og köld vatnsgusa. Engin leikur á örlögin og fyrir dauðanum eru allir jafnir, jafnvel erfingi Guinnes auðævanna. Sögumaðurinn er fletta í dagblaðinu og eins og endranær er stöðugt eitthvað drastískt að gerast í veröldinni. Þegar hann þagnar og leggur frá sér blaðið hamast heil hljómsveit ótal hljóðfæra á emoll, frá tóni til tons, ofar og ofar, alveg þangað til allt brestur í dúr og við blasir Hversdagsleikinn í allri sinni dýrð, þar sem rauluð er smá saga úr hversdagsleikanum. Lagið endar síðan á öllu saklausari og tilgangslausari fret úr sama blaði, um holutalningar í Lancashire.
Þannig er lífið í Bítlaheimi.
Þessar heimspekilegu þankar þeirra í lokin eru alls ekki á skjön við gelgjulega tilfinningar upphafsins nema síður sé, heldur nefnilega eðlilegt framvinda og þróun.
Þrátt fyrir ofantalda lofrullu vill ég undirstrika í lok þessarar greinar að Srg. Peppers Lonely Hearts Club Band er langt frá því að vera gallalaus plata… En það var hins vegar aldrei tilgangur greinarinnar að fara nánar út í það