Góðann daginn.

Fyrir stuttu skrifaði ég heimildaritgerð um Hljóma í skólanum og datt í hug að posta henni hingað. Greinin er soldið löng en það á vonandi einhver eftir að hafa gaman að henni.

Upphaf Hljóma
Þeir voru nú ekki búnir að spila lengi saman þegar þeir slógu í gegn á sínum fyrstu tónleikum. Þeir spiluðu undir dansi í Krossinum í Keflavík þann 5. október 1963, þar sem að hljómsveit úr bænum forfallaðist. Rúnar hafði þetta að segja um fyrstu tónleikana: „Það var ægilegt, en ofsagaman. Þakið var lekt og við vorum kófsveittir af taugaspenningi, svo vorum við orðnir rennblautir undir lokinn. Það má segja að við höfum verið vígðir með vatni.“ Þeir höfðu byrjað að spila saman í lok sumarsins eftir að Einar Júlíusson og Gunnar Þórðarson hættu að spila í hljómsveitinni Saxon-kvintettinn undir stjórn Guðmundar Ingólfssonar, og ákváðu að stofna sína eigin hljómsveit. Gunnar bauð Erlingi Björnssyni að vera og með og stuttu seinna bættist Eggert Kristinsson við á trommurnar. En þá vantaði bara bassaleikara til að fullkomna hljómsveitina. Gunnar stakk upp á „Guðmundi“ Rúnari Júlíussyni, sem þá hafði aldrei snert við bassa. En Gunnar hafði sterka trú á honum, því hann þótti með einsdæmum músíkalskur. Gunnar hófst handa við að kenna Rúnari á bassan og við tók tveggja vikna stanslaus æfingatími og Rúnar var orðinn klár í slaginn, þess má geta að seinna var hann talinn einn besti bassaleikari landsins. Hljómsveitarskipan var því orðin eins og hér segir: Gunnar Þórðarson – gítar, Erlingur Björnsson – ryþmagítar, Eggert Kristinsson – trommur, Rúnar Júlíusson – bassi og Einar Júlíusson – söngur. Eggert hafði stungið upp á nafninu Hljómar en hinum fannst það asnalegt en það gafst ekki tími til að finna nýtt nafn strax þar sem fyrstu tónleikarni komu snögglega upp. Eftir tónleikana tók við spilirí í hverri viku í Keflavík. Til að byrja með var prógrammið samansafn af Cliff Richard- og Shadowslögum enda var útlitið og stílinn í anda Shadows. Fyrsta ballið utan Keflavíkur var í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði 30. nóvember 1963. Karl Hermannson hafði þá tekið við af Einari sem söngvara hljómsveitarinnar. Einar bað um frí vegna kirtlatöku sem hann þurfti að fara í en fékk ekki inngöngu aftur í Hljóma, því það var komið nýtt hljóð í hljómsveitina: Bítlahljóð.

Bítlaæðið á Íslandi
Eftir árið voru Hljómar búnir að safna bítlahári og láta sauma á sig bítlaföt. Auglýstir voru bítlatónleikar í Háskólabíó 4. mars 1964 þar sem helstu íslensku bítlahljómsveitirnar komu fram. Þrátt fyrir að allar hljómsveitirnar voru með nánast sama prógrammið voru Hljómar ótvíræðir sigurvegarar þessa tónleika. Eftir sigurgöngu þeirra á tónleikunum fóru að berast tilboð frá öllum landshlutum. Þeir fóru þá einnig að semja eigin lög og bættust frumsömdu lögin smátt og smátt inn í prógrammið innan um öll bítlalögin og tóku þeir upp sum þessara laga fyrir útvarpsþáttinn Með æskufjöri. Þeir voru orðnir langvinsælasta hljómsveit landsins og var farinn að ýta hljómsveitinni Tónum út úr skemmtistaðnum Lídó nokkrar helgar í röð, en þeir höfðu verið aðalhljómsveitin þar. Í maí 1964 lögðu Hljómar landið undir sig og fóru þeir að spila á öllum kvöldum út um allt land. Rétt fyrir ball í Keflavík afboðaði Karl komu sína og sagðist vera hættur. Hinir þurftu því að skipta með sér söngum. Í ágúst var svo bítlamyndin A Hard Day’s Night frumsýnd í Tónabíó og voru Hljómar heiðursgestir á þeirri sýningu og var þeim fagnað ákaft þegar þeir gengu inn í salinn. Eftir sumarið tóku þeir sér frí og fóru til Englands. Þeir tróðu upp á Cavern-klúbbnum í Liverpool, þar sem sjálfir Bítlarnir höfði stigið sín fyrstu frægðarskref. Þeir voru einnig viðstaddir þegar Bítlarnir komu heim frá fyrstu Bandaríkjaförinni. Þegar þeir héldu heim varð Eggert eftir og skráði sig í viðskiptaskóla. Þeir buðu því Engilberti Jensen að taka við trommukjuðunum. Hann hafði þá verið í 6 ár í Hljómsveit Guðmundar Ingólfssonar, þeirri sömu og Gunnar hafði verið í áður en hann stofnaði Hljóma. Engilbert þótti einnig efnilegur söngvari þótt hann var kannski ekki tilþrifamikill trommari.
Í nóvember 1964 var aftur efnt til stórtónleika í Háskólabíó og þar helstu bítlahljómsveitirnar aftur saman komnar. Nú voru frumsömdu lögin meira áberandi en á fyrri tónleikum. Hljómar stigu síðastir á svið og voru enn og aftur ótvíræðir sigurvegarar kvöldsins. Þeir voru orðnir nú konungar bítlsins á Íslandi. Ástæðurnar fyrir konungstigninni voru taldar upp í grein í Vikunni:

Í fyrsta lagi eru þeir eina bítlahljómsveitin, sem hefur músík að sínu aðal- og eina starfi. Þeir eru sem sagt prófessionell, og hafa þess vegna meiri tíma til æfinga og umhugsunar (um starfið). Þar af leiðandi spila þeir auðvitað betur en aðrir. Þar af leiðandi er það líka sjaldnar, að þeir þurfa að skipta um mannskap, en það vill oft verða hjá aukavinnuleikurum, að þeir mega ekki vera að því að halda þessu áfram. Og svo aðalatriðið: Enginn þeirra smakkar vín og aðeins tveir þeirra leyfa sér þann ósóma að reykja.

4. febrúar 1965 tóku þeir svo upp tvö lög í ríkisútvarpinu. Það voru lögin Bláu augun þín og Fyrsti kossin. Lögin voru gefin út á tveggja laga plöt í mars sama ár og var þetta jafnframt fyrsta íslenska bítlaplatan og seldu þeir um 5000 eintök af plötinnu og staðfestu þeir því hér með að þeir væru með forystuna í bítlaæðinu á Íslandi. Snemma árs 1965 kom hljómsveitin The Swinging Blue Jeans til íslands og héldu sex tónleika í Austurbæjarbíó. Þetta var fyrsta erlenda bítlahljómsveitin sem kom til íslands. Hljómar hituðu að sjálfsögðu upp og leist liðsmönnum úr „bláu sveiflubuxunum“ svo vel á lagið Bláu augun þín að þeir vildu kaupa lagið eins og það lagði sig af Gunnari Þórðarsyni en hann afþakkaði boðið. Svo í september sama ár komu The Kinks til landsins og héldu tónleika í Austurbæjabíó. Hljómar voru nú ekki viðstaddir þá tónleika en Ray Davis söngvari The Kinks kom í Sigtún þar sem Hljómar voru að spila og tók nokkur lög með þeim.

Nýjir tímar hjá Hljómum
Nú var velgengnin orðin svo mikil að þeir ákváðu að styrkja hljóðværaleikinn og stefna jafnvel á alþjóðamarkað. Vorið 1965 réðu þeir til sín nýja trommara, Pétur Östlund. Var upphaflega hugmyndin að láta Engilbert eingöngu um söngin, en hann var nú ekki sáttur við það og sagði sig úr hljómsveitinni og gekk yfir í hljómsveitina Óðmenn. Hugur þeirra leitaði alltaf meira og meira erlendis og þegar efnilegur kvikmyndagerðamaður, Reynir Oddsson að nafni, ætlaði að gera hálftíma heimildar-mynd um sveitaböll á Íslandi og Hljóma, gátu þeir ekki sagt nei. Myndina átti að sýna um allan heim á vegum alþjóðlegs sjónvarpshrings, þá hlyti nú heimsfægðin að fylgja í kjölfarið. Hljómar þurftu reyndar að greiða helminginn af kostnaðinum en þeim þótti það lítið mál þar sem að þeir fengju margar milljónir til baka þegar þeir yrðu heims-frægir. Þeir skrifuðu undir og hófust þá tökur sem stóðu í um 3 mánuði. Tekið var upp á böllum víðs vegar um landið. Alls voru teknir upp um 27 klukkutímar en megnið af því var samt ónothæft. Meðan á tökum stóð kynntust þeir Kana upp á velli, Dan Stevens. Hann tók við umboðsmennskunni af Ámunda, sem hafði verið umboðsmaður þeirra frá upphafi. Þeir voru farnir að horfa í auknum mæli til útlanda og þá var betra að hafa erlendan umboðsmann. Um haustið 1965 héldu þeir til London að taka upp tónlistina fyrir myndina og Dan fór til EMI , sem er útgáfufyrirtæki sjálfra Bítlana, og reyndi að ná samningum. Hljómar breytta nafninu í Thor’s Hammer fyrir erlendan markað. Þeir mættu í Lansdowne-hljóðverið í London og voru þar einnig mættir menn frá EMI til að hlusta á þá. Þeir sögðu lítið, en virtust jákvæðir. Þeir tóku upp níu lög með enskum textum, því myndin var aðalega hugsuð fyrir erlendan markað. Þegar myndin kom til sýningar var hún bara korter að lengd og þótti óskiljanleg og illa gerð. Myndin var bara sýnd í tvo daga í Keflavík og fór síðan í ferðalag um landið. Eftir sátu Hljómar með sárt ennið og vonin um frægð og frama erlendis orðin að engu. Hljómar gáfu út tvær 7 tommu plötur með lögunum úr myndinni en lítið var um vinsældir þeirra, enda voru lögin úr misheppnaðri mynd. Fór þá að halla undan fæti Hljóma og vinsældir þeirra fóru minnkandi. Þeir fóru þó sveitaballarúnt um sumarið 1966 og gekk það ágætlega. En fólk kunni illa við að þeir sungu á ensku og tónlistin var orðin þyngri. Þeir voru allir orðnir staurblankir og voru orðnir þreittir á þessu, sérstaklega Pétur sem sagði sig úr Hljómum í nóvember 1966 og ætlaði á sjó.

Engilbert kemur aftur
Þeir fengu Engilbert til að koma aftur og hætta í Óðmönnum. Óðmenn gerði Pétri tilboð um að koma yfir til þeirra, sem hann og gerði og hætti við að fara á sjóinn. Með komu Engilberts urðu Hljómar sterkir á ný og fengu frábærar viðtökur á stórtónleikum í Austurbæjarbíó 1. febrúar 1967. Ráðist var í gerð stórrar plötu og voru þeir jafnframt fyrsta íslenska bítlahljómsveitin til þess. Platan var tekin upp í London, tekin voru upp tólf lög á fimmtán tímum, við betri aðsæður en þekktust á Íslandi. Með þessu endurheimtu þeir fyrri vinsældir og voru komnir aftur á toppinn. Þeir fengu þó bráðlega samkeppni frá nýrri hljómsveit sem kallaði sig Flowers. Segja má að aðdáendur hljómsveita hafi skipst í tvennt og fylgdu sinni hljómsveit og var oft rígur á milli aðdáenda þó svo að mikil vinsemd var á milli hljómsveitanna og seinna sameinuðust þær í Trúbrot, en ekki verður fjallað um það hér. Hljómar töldu sig vera komna með samning í Bandaríkjunum sumarið 1968 og vildu styrkja hljómsveitna í tilefni þess.

Shady Owens, sem er bandarísk í aðra ættina og íslensk í hina, hafði þá vakið athygli á söng-hæfileikum sínum með Óðmönnum frá Keflavík og Gunnar Þórðarson taldi hana á að koma yfir í Hljóma. Þá var ekki nema rúmt ár liðið frá því Hljómar rændu Engilbert Jensen frá Óðmönnum og þetta reið hljómsveitinni að fullu.


Þeir höfðu einnig talað við Gunnar Jökul, trommara Flowers, um að koma til þeirra en Bandaríkjaförin varð að engu og Gunnar hélt áfram hjá Flowers.
Hljómar og Flowers höfðu lengi gælt við þá hugmynd um að sameinast í eina hljómsveit. Fá þá bestu hljóðfæraleikara úr hvorri hljómsveit og stofna eina ofurhljómsveit. Snemma árs 1969 varð þetta síðan að veruleika og tóku Gunnar, Rúnar og Shady úr Hljómum saman við Gunnar Jökul Hákonarson og Karl Sighvatsson úr Flowers og hljómsveitin Trúbrot varð til. Eftir daga Trúbrots árið 1973 voru Hljómar endurvaktir. Þó var smá breyting á liðsskipan. Gunnar, Rúnar og Engilbert voru áfram en Erlingur Björnsson var ekki með og Björgvin Halldórsson kominn í hljómsveitina. Vorið 1974 gáfu þeir út plötuna Hljómar ’74 en tónlistin á þeirri plötu átti ekkert skylt við gamla Hljóma-bítlið og naut lítilla vinsælda. Var því ákveðið að stofna Ðe Lónlí blú bojs, sem átti að vera leynihljómsveit en fljótlega komst upp hverjir þetta voru þar sem fólk kannaðist við raddirnar.

Lokaorð
Það er óhætt að segja að Hljómar hafi verið áhrifamest íslenska hljómsveitin á sjöunda áratugnum. Margir vildu vera eins og þeir en engin önnur hljómsveit náði eins miklum vinsældum og þeir. Þeir voru hinir íslensku bítlar, konungar bítlsins á Íslandi. Lögin þeirra njótta ennþá í dag mikilla vinsælda og hafa mörg þeirra verið endurútgefin af öðrum hljómsveitum. Hljómar hafa nú verið að koma saman síðastliðin ár og spilað á böllum og tónleikum hér og þar um landið og notið góðra undirtekta. Lögin þeirra eiga eftir að lifa áfram um ókomna tíð.



Heimildaskrá
Gestur Guðmundsson. 1990. Rokksaga Íslands.
Forlagið, Reykjavík

Gunnar Lárus Hjálmarsson. 2001. Eru ekki allir í stuði? Rokk á Íslandi á síðustu öld.
Forlagið, Reykjavík.