Það var þann 6. júní 1962 sem fjórir sprækir strákar frá Liverpool mættu inní upptökuver EMI plöturisans við Abbey Road og hófu að taka upp efni sem átti eftir að enda á fyrstu plötu þeirra Please Please Me. Ekki er hægt að segja að tónlist þeirra hafi hitt í mark hjá starfsfólkinu þennan dag, en náttúrulegir töfrar þeirra og hressilegt viðmót fór ekki framhjá neinum og sáu margir að eitthvað sérstakt var við þá. Lögin sem tekin voru upp þennan dag voru Love Me Do og P.S. I Love You. Þau komu fyrst út á smáskífu 5. október 1962 og náðu 17. sæti á Breska vinsældarlistanum. Níu lög voru hljóðrituð á undir stórn George Martin, sem átti eftir að verða kallaður “fimmti Bítillinn”.
Platan kom síðan út 22. mars 1963 og fór á toppinn þann 4. maí í Bretlandi og var þar með lagður grunnur að þeim geysivinsældum sem Bítlarnir áttu eftir að njóta á vinsældarlistum víðsvegar um heiminn. Lennon/McCartney lög plötunar voru átta talsins, en sex voru “cover” lög sem voru samansafn laga sem Bítlarnir voru búnir að flytja á dansleikjum í gegn tíðina og voru í uppáhaldi.
Upphafslagið I Saw Her Standing There var alger sprengja, hraður og grófur takturinn var eitthvað nýtt fyrir hlustendur og laglínan sérstaklega grípandi. Please Please Me var af svipuðum toga og var það jafnframt fyrsta lag þeirra sem fór á toppinn á breska vinsældarlistanum (2. mars). Önnur sterk Lennon/McCartney lög eru P.s I Love You, Love Me Do og Do You Want To Know a Secret þar sem George Harrison syngur aðalröddina. Lagið There´s a Place er sjaldheyrður fjársjóður og er gott dæmi um hve raddir Paul og John voru ólíkar, en pössuðu vel saman.
Ekki eru öll lög plötunnar jafn góð, þar sem lagahöfundarnir voru ekki búnir að ná fullkomnun í list sinni, þó að þau séu langt frá því að vera slæm. Má þar nefna Misery og Ask Me Why.
“Cover” lögin sem koma best út á plötunni eru Chains, Boys, A Taste of Honey og auðvitað hin ódauðlega túlkun Bítlanna á Twist and Shout, sem skildi hlustandann eftir í lama. Anna (Go to Him) og Baby It´s You eru ekki eins sterk, en þau eru fullvæmin fyrir minn smekk.
Rokkbylgjan sem skall yfir heimsbyggðina á árunum 1956-1959 var að renna út í sandinn. Stjörnurnar sem leysti hana af hólmi misstu hráleikann sem gerði rokkið svo heillandi. Jafnvel kóngurinn Elvis var orðinn mjúkur og gekk sama veg og Niel Sedaka, Everly Brothers og Del Shannon.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá var þessi frumburður Bítlanna sprengja í tónlistarheiminum og fær hærri stjörnugjöf sökum þess. Sumarið 1963 kom svo út lagið She Loves You sem gulltryggði vinsældir Bítlanna í Bretlandi og Skandinavíu, en restin af heimsbyggðinni mátti bíða í hálft ár í viðbót.
Stjörnugjöf: ***1/2 af 5 mögulegum