Ekki veit ég hvað margir af þeim sem lesa þessa grein hafa farið í nám við grafíska hönnun eða grafíska miðlun hérlendis eða erlendis. Sjálfur hef ég ekki stundað nám eða sótt námskeið á sviði grafískrar hönnunar en ég hef mikið heyrt um það talað að skólarnir séu ekki að undirbúa fólk nógu vel fyrir það sem koma skal þegar það er komið út á atvinnumarkaðinn. Flestir kvarta yfir því að í skólanum fái maður ekki nóg af verkefnum þar sem alvöru clientar eru að biðja um hönnun á verki. Það er því alltaf þú sem hefur lokasvarið á hönnuninni þinni. Þú ert í rauninni að borga sjálfur fyrir þína hönnun þannig að kennarinn getur komið með krítík á verkin þín en á endanum fer þetta alveg eftir þínu höfði.
Ég meina, kennarinn þinn mun aldrei koma til þín með viðbjóðslega ljóta og illa farna ljósmynd og biðja þig að setja hana á forsíðuna á fréttabæklingnum sem þú ert að hanna á meðan við heyrum daglega um álíka sögur “in the real world”. Málið er að þarna úti eru clientarnir að borga þér slatta af pening fyrir að hanna t.d. fréttabækling og þessvegna verður þú að hanna bæklinginn eftir þeirra höfði. Það skiptir ekki máli þótt þér finnist einhver fontur betri í fyrirsagnirnar, einhver litur betri í bakgrunn eða einhver mynd betri á forsíðuna en honum finnst. Þó að hvert einasta designer-bein í líkama þínum segi nei við hugmyndum clientsins þá verður þú bara að kyngja því, því að það er alltaf hann sem á lokasvarið. Það er alltaf hann sem segir nei eða já.
Þetta finnst mér líka koma beint inn á það að margir ungir grafískir hönnuðir er núna að feta brautir modern meistara á borð við Mike Young (designgraphik.com), Thomas Brodahl, (surfstation.lu) og fleiri. Þegar þeir fara síðan í skóla fá þeir að leika sér aðeins með þessi form og þessar hugmyndir og gera eitthvað framúrstefnulegt og ögrandi en þegar þeir svo loksins útskrifast uppfullir af nýjum hugmyndum fara þeir út á vinnumarkaðinn og fá ekki að gera neitt líkt því sem þeir hafa verið að gera. Vinnumarkaðurinn er miklu íhaldssamari en skólarnir og eru ekki nema einstaka fyrirtæki sem þora að taka skref og ögra fólki með framúrstefnulegri hönnun og nýjum leiðum til að koma kynningarefni frá sér. Þú gætir þessvegna verið settur í að gera svarthvítar atvinnuauglýsingar fyrir Moggann í tvö ár. ;) Þó eru að spretta upp fyrirtæki sem skipuð eru aðeins ungum hönnuðum og forriturum sem vita hvað þeir vilja. Nú eru það bara clientarnir sem verða að breyta hugarfari sínu.
Mér finnst að skólarnir ættu að fókusera meira á hvernig markaðurinn er í dag og fá meira af client verkefnum þar sem nemandinn fær ekki tök á því að eiga lokasvarið. Því eins og einhver sagði einhvertíman “Grafískur hönnuður verður aldrei farsæll í starfi sínu nema að þekkja popp-menninguna - og gleypa við henni.”
Mig langar endilega að heyra álit þeirra sem hafa farið í nám við grafíska hönnun og eru komnir út á vinnumarkaðinn og allra hinna.

kveðja,