Áhugamálið var á niðurleið þegar þú tókst við admin stöðunni og eru svo sem ágætis hlutir sem þú ert búinn að vera að gera hérna en því miður er svo margt, margt fleira sem mætti gera betur fyrir þetta áhugamál.
Þessi banner sem tók við af þeim ágætis banner sem molo gerði á sínum tíma ef ég man rétt, er (með fullri virðingu fyrir höfundinum) hörmung. Hann passar engan veginn við restina af síðunni, ekki einu sinni litirnir eru þeir sömu. Annað hvort að efna til annarar keppni þegar meiri áhugi er kominn fyrir þessu áhugamáli eða einfaldlega setja þann gamla upp aftur.
Þó nokkuð er síðan Frozt nr.6 kom út, eða í mars 2003. Og hefur það en ekki fengið að sjást inná frozt kubbnum hérna.
“Hjálp/Kennsla” í tenglunum og Kennsluefnis kubburinn.. einn og sami hluturinn? Óhætt að flytja þá tengla úr hjálp/kennslu sem gagnlegir eru yfir á kennsluefniskubinn.
Sömuleiðis að fara í gegnum tenglana, stór hluti af tenglunum eru ónýtir/bilaðir. Sem dæmi má nefna 3dbrain tengilinn í listhönnun, 3dbrain varð að 3d.is fyrir fleiri mánuðum. Auk þess mætti gera aðeins meiri kröfur hvað varðar nöfnin á þeim oft, setja reglur um almennilega stafsetningu og að nafnið segi manni eitthvað um hvað þú ert að fara að ýta á. Sem dæmi “Grafískur hönnuður” er einfaldlega heimskulegur titill, korkurinn heitir “erlendir hönnuðir” svo að það er nokkuð augljóst að þetta ætti að vera tengill á “grafískan hönnuð” (auk þess sem að einhverra hluta vegna liggur tengillinn á microsoft.com). Finndu út hvað höfundurinn heitir, kynntu þér verk hans og sendu svo inn tengilinn á síðuna hans. Ekki henda bara eins mörgum tenglum og þú getur inn með einhverjum hönnuðum sem þú dast inná síðuna hjá og hugsaðir “vá, þessi hlýtur að vera grafískur hönnuður því heimasíðan hans er ekki gerð í frontpage”. Reglan er ekki að senda inn sem flesta tengla á hönnuði endilega heldur hönnuði sem þú heldur uppá og dáist af verkum hans.
Þau tutorial sem verið er að senda inn sem greinar, mætti ekki koma þeim á kennsluefnis kubbinn líka? Annars verður því miður að segjast að meirihlutinn af þeim eru einfaldlega íslenskuð tutorial af erlendum síðum og margir hverjir hafa ekki einu sinni lagt það á sig að gera þetta sjálfir heldur benda á upprunalegu myndirnar af síðunni þar sem þeir tóku efnið. Ekki misskilja mig, það er ágætt að fá slíkt efni íslenskað og komið fyrir á einum stað, en lágmarkið er að benda á síðuna þar sem þið tókuð þetta!
Grafíkin/Hönnunin var eitt sinn vettfangur þar sem rætt var um grafíkina/hönnunina sem búið var að senda inn til hægri við hann. En varð einhvern veginn að “Getur einhver búið til logo fyrir cs clanið mitt?” kubbnum. Þeir þræðir sem ekki fjalla um grafíkina/hönnunina (vá, hvað ég er að verða þreyttur á að skrifa þetta) ætti að eyða, hiklaust.
Þessi 3d kubbur er svo sem ágætis hugmynd, en til staðar er nú fyrir 3d.is sem ég trúi að svolítið erfitt sé að fara í samkeppni við hvað varðar svona lítið samfélag.
Hvernig væri kubbur svipaður “Forrit & Tól” kubbnum á vefsíðugerð, tenglar á heimasíður framleiðenda o.fl. Og jafnvel gert betur og fjallar eitthvað um forritin. Mikill hluti fólks sem kemur inná grafík veit oft lítið um hana en fer hingað inn til að fræða sig og veit oft ekki hvað á að nota í hvað eða einfaldlega ekki hvað á að nota.
Enn og aftur, með fullri virðingu fyrir MikeTee þá verð ég því miður að setja út á stafsetninguna þína :( Það er leiðinlegt að sjá að stjórnandinn á áhugamálinu skuli ekki nota almennar stafsetningar reglur, stóra stafi í byrjun á nýrri setningu og byrji grein á “Hæ”. Ég vona að þú fáir þá hugmynd að ég hafi nokkuð á móti þér, því það er ekki raunin. En þú ert stjórnandi og oft merki áhugamálsins og því er mikilvægt að þú komir vel fyrir.
Svona gæti ég haldið áfram lengi enn.. En já, mikilvægt er núna að gera eitthvað meira úr grafík áhugamálinu og reisa það til fornrar dýrðar, sérstaklega í ljósi þess að nýverið opnaði áhugamálið myndlist hér á huga og áður var grafík eina áhugamálið um list og fékk því að standa óhreyft. En ef áhuginn fyrir grafík heldur áfram á sömu braut hérna þá endar það ef til vill með því að það verður skorið niður og sameinað myndlist (og fær þá einn kork sem heitir “tölvugerð list” eða eitthvað álíka og einn flokk í tenglunum þar).
Kv, Drizzt