Arndís Friðriksdóttir prófaði pakka sem samanstóð af CAV Q2000 hátalarapakka og Kenwood 6090 heimabíómagnara.
Hér fylgir umsögn hennar og ég tek það fram að Portus.is ber ekki nokkra ábyrgð á skrifum hennar né heldur tengist þeim á nokkurn hátt. Þetta er hlutlaust mat hennar og hún fékk ekki nokkra umbun að hálfu Portus.is fyrir þessi skrif.
“Hér á eftir koma nokkur orð um cav q2000 hátalarapakka og kenwood v6090 heimabíó magnara sem við hjónin tókum í prófun í viku frá versluninni Portus.
Þetta er heilmikill pakki að fá í hendurnar(í raun sex pakkar). Það fyrsta var auðvitað að opna þetta og kíkja á útlit hlutanna. Fyrst kenwood magnarinn sem ég held að kosti um 40.000 kr. Hann er í raun eins og allir aðrir ódýrir heimabíómagnarar. Lítur ágætlega út er ekki mjög cheap að sjá en þó langa vegu frá dýrari merkjum eins og eðlilegt er. Næst var ráðist á hátalarana. Þeir koma nokkuð á óvart þegar þeir eru teknir úr kössunum. Eru úr áli(altént líta út fyrir það) sem er kærkomin tilbreyting frá plast hátölurum sem oft fylgja heimabíópökkum. Meira að segja fylgdu hvítir hanskar til að taka þá upp úr kössunum. Framhátalararnir tveir eru súlur sem eru mjóar neðst niðri eins og blýantur sem stendur á oddinum. Við áttum eitt sinn Infinity Oreus hátalarasett og þessir hátalarar minna nokkuð á þá. Vandaðir að sjá og ílangir. Það sett kostaði þó rétt yfir hundrað þúsund og þar var subwooferinn úr plasti en hér er hann úr áli og nokkuð nett hönnun. Þetta lítur gæðalega út. Þeir sem eiga börn eða gæludýr vilja þó líklega frekar subwoofer þar sem driverinn er ekki opinn fyrir litla putta að pota í.
Þá að næsta máli, hvernig soundar þetta. Við byrjuðum fyrstu dagana með að láta tónlist rúlla í gegnum kerfið. Nú hafa ber bak við eyrað að við höfðum þetta bara í viku og líklega hefði náðst betri tónn í kerfið með meiri tilfæringum. Það kom fljótlega í ljós að tónlist hljómaði best í okkar eyru þegar spilarinn, í þessu tilviki 2ja ára gamall jvc dvd spilari var tengdur með analog snúrum við magnarann. Til að fá einhverja hugmynd um soundið má segja að það hafi verið vel ásættanlegt. Mun betra en í flestum sambyggðum kerfum og vel boðlegt. Í samanburði þá kunnum við aðeins betur við gamla sony/Infinity kerfið okkar sem var líka rúmlega helmingi dýrara. Munurinn þó ekki það mikill að hann réttlæti verðmuninn. Hljóðið varð alltaf svolítið hart sérstaklega ef hækkað var líklega batnar það þó við meiri notkun. Best virkaði þegar við settum bút af parketundirlari undir bassann. Að gamni tengdum við Arcam cd spilarann okkar við þetta kerfi og var það til batnaðar en þó ekki að ráði. Borgar sig líklega ekki að vera með geislaspilara sem er dýrari en restinn af græjunum.
Til að taka saman nokkra punkta. Hljóðið var vel ásættanlegt og kom mikið af smáatriðum vel í gegn í tónlistinni. Mun meira en í svona fermingargræjum sem kosta þó oft svipað. Þetta virkaði betur í rokk/popptónlist en var ekki eins skemmtilegt í djass sem við hlutstum gjarnan á. Þar vantaði smá flæði í tónlistina hún hékk ekki alveg nógu vel saman. Minnti dálítið á Bose heimabíó sem eru alltaf svolítið “spes” í tónlist að okkar mati. Værum við sátt við þetta sem stereogræjur? Nei en fyrir marga sem eru að kaupa heimabíókerfi þá er þetta sjálfsagt feikinógugott.
Svo kom að kvikmyndum. Við notuðum ekki standana fyrir bakhátalara og við notuðum okkar eigin snúrur í bakið vegna þess að þær liggja undir parketinu og því snyrtilegri lausn. Það rifjaðist fljótt upp hvað heimabíó er mikið vesinn(Erum alveg farinn yfir í Stereo). En það var virkilega gaman að prófa. Skemmst frá að segja að bíó er býsna skemmtilegt í þessu kerfi. Við grófum fram alls konar myndir úr safninu sem var nauðsynlegt að prófa, eins og gömlu star Wars myndirnar og Lord of the Rings. Það segir kannski mest um þetta kerfi að við gleymdum iðulega að velta okkur upp úr soundinu. Þetta var einnig áminning fyrir okkur um að subwoofer er nauðsyn til að njóta bíómynda. Því miður þá gátum við aldrei keyrt kerfið virkileg hátt (eigum lítla stelpu) en fundum aldrei fyrir því að það skorti kraft í kerfið. Þetta kom á óvart því við höfum haft fordóma gagnvart ódýrum heimabíómögnurum. Til að taka saman. Þétt og fínt sound í myndir, nær að skapa bíóstemmingu. Að sjálfsögðu ekki það besta sem við höfum heyrt í en fyrir um 100þ. Er þetta fantagott. Mundi þetta duga okkur sem heimabíó? Já engin spurning.
Þegar allt kemur til alls þá er þetta ekki kerfi fyrir okkur núna. Við erum hrifnari af góðum stereogræjum. Hins vegar ef við ættum sérstakt sjónvarpshol þá mundi þetta virkilega freista, þetta er ódýrt en samt þrælskemmtilegt og smekklegt heimabíó. Lítur líka út fyrir að vera mun dýrara en það er ef einhver hefur áhuga á slíku.”