Keppni á Evrópumótaröðinni hefst aftur á morgun eftir nokkurt hlé. Þá verður keppt í Sameinðu arabísku furstadæmunum og þar verður Vijay Singh á meðal keppenda, en hann hefur ekki tekið þátt í móti í Mið-Austurlöndum síðan 1993. „Ég hef heyrt vel talað um Abu Dhabi og ég hlakka til að leika völlinn sem er sagður mjög skemmtilegur,“ sagði Singh.
Singh hefur unnið þrjú risamót á ferlinum; PGA-Meistaramótið 1998 og 2004 og Mastersmótið 2000. Hann vann fimm PGA-mót á síðasta ári og var um tíma í efsta sæti heimslistans fyrir rúmu ári síðan.
120 kylfingar taka þátt í Abu Dhabi meistaramótinu þar á meðal eru Skotinn Colin Montgomerie og Spánverjinn Sergio Garcia, sem freista þess að ná í stig fyrir Ryderkeppnina, sem fram fer á Írlandi í haust. Þeir verða með Vijay Singh í ráshópi á morgun. Þá mæta einnig til leiks Bandaríkjamennirnir John Daly og Chris DiMarco, sem veitti Tiger Woods svo harða keppni á Mastersmótinu í fyrra.
„Ég hef ekki mikið ferðast utan Bandaríkjanna til að keppa og ég er mjög spenntur að leika á Abu Dhabi mótinu,“ sagði DiMarco sem varð í sjöunda sæti á PGA-peningalistanum á síðasta tímabili. „Það eru margir góðir kylfingar sem taka þátt í mótinu og það verður örugglega mikil keppni. Ég bíð spenntur eftir að mæta á teig.“
Mótinu í Abu Dhabi er nú í fyrsta sinn hluti af Evrópumótaröðinni, en alls eru mótin í ár 49 talsins og er leikið í 24 löndum. Verðlaun í mótinu eru ekki af verri endanum, samtals 2 milljónir Bandaríkjadala. Mótið verður sýnt beint í sjónvarpi til um 60 landa.