Bandaríkjamaðurinn David Toms setti vallarmet á Waialae-vellinum á eyjunni Honolulu á Hawaii í gær, lék á 61 höggi, eða 9 höggum undir pari. Hann deilir efsta sæti Sony mótsins ásamt Chad Campbell, sem lék á 62 höggum. Þeir eru báðir á samtals 14 höggum undir pari og eru í sérflokki, sjö höggum á undan næstu mönnum.
Toms átti hreint ótrúlegan hring – hans besti á ferlinum. Hann fékk 9 pör og 9 fugla, þar af 6 fugla á seinni níu. Hann bætti gamla vallarmetið um eitt högg, en metið var í eigu John Cook (2002), Steve Allen (2004), Frank Lickliter (2004) og Ernie Els (2005). Vellinum var breytt í par-70 árið 1999, en besta skor á gamla vellinum sem var par-72 átti Davis Love III sem lék á 60 höggum, eða 12 höggum undir pari árið 1994.
“Þegar maður leikur eins vel og ég gerði er sjálfstraustið í botni og það gengur allt upp. Ég setti niður ótrúleg pútt á seinni níu. Campbell var einnig að leika mjög vel og ég þurfti að hugsa um að halda í við hann því ég vildi ekki missa hann of langt frá mér. Þetta var dagur sem ég naut þess að leika golf,” sagði Toms.
Campbell, sem er frá Texas, hefur leikið vel allt mótið (67-67-62) og er einn af þremur keppendum sem hafa leikið alla hringina á innan við pari. Hann fékk fjóra fugla í röð í gær, frá 7. til 10. holu. “Það hjálpaði okkur líka að vindurinn var ekki eins mikill og hina tvo keppnisdagana,” sagði Champbell.
Jim Furyk, sem var í efsta sæti mótsins ásamt Campbell, eftir annan hringinn, fór illa af stað - fékk þrjá skolla í röð. Hann lauk leik á 70 höggum og er í 5.-7. sæti ásamt Charles Warren og Rory Sabbatini á samtals 6 höggum undir pari.
Meistarinn frá í fyrra, Vijay Singh, lék þriðja hringinn á 65 höggum og er níu höggum á eftir Toms og Champbell fyrir lokahringinn.