Fred Funk, sem verður fimmtugur í sumar, er elsti keppandinn á Mercedes meistaramótinu sem hefst í Kapalua á Hawaii á morgun, en mótið markar upphaf keppnistímabilsins á PGA-mótaröðinni 2006. Það eru aðeins sigurvegarar á PGA-mótum síðasta árs sem fá að taka þátt í mótinu, en nokkrir þeirra eru fjarrið góðu gamni eins og Tiger Woods og Phil Mickelson.
Funk er gríðarlega vinsæll kylfingur, er ungur í anda og það er oftast stutt í brosið. Hann vann sér rétt til þátttöku þessu móti með því að vinna Players Meistaramótið í mars í fyrra. Hann segist eiga sér það markmið að komast í Ryder-lið Bandaríkjanna sem etur kappi við úrvalslið Evrópu í Dublin í september. „Það er markmið númer eitt að komast í liðið hjá Lemanns og til þess að það takist þarf ég að spila vel,“ sagði Funk sem verður fimmtugur 14. júní í sumar og er þá orðinn gjaldgengur á bandarísku öldungamótaröðina, Champions Tour.
Ástralinn Stuart Appleby á titil að verja og hefur sigrað á þessu móti tvö ár í röð. Hann vann Vijay Singh með einu höggi í fyrra, eftir að hafa leikið síðustu 55 holurnar án þess að fá skolla.
28 kylfingar leika á mótinu í Kapalua í Hawaii, sem fram fer á Plantation-vellinum (par-73.). Heildarverðlaunafé í mótinu er 5,4 milljónir Bandaríkjadala og fær sigurvegarinn rúma milljón dollara í sinn hlut.