Robert Allenby sigraði á PGA-meistaramótinu í Queensland í Ástralíu í gær og var þetta annar sigur hans á opnu móti í heimalandi sínu á einni viku. Hann setti niður fugl á lokaholunni í gær og tryggði sér þannig efsta sætið, var einu höggi á undan landa sínum, Mathew Goggin, sem jafnaði vallarmetið í gær, lék á 63 höggum.
Allenby, sem sigraði á Opna ástralska mótinu fyrir viku síðan, lék þriðja hringinn á laugardag á 64 höggum, eða 8 höggum undir pari og í gær lék hann lokahringinn á 67 höggum. Hann lék samtals á 270 höggum, eða 18 höggum undir pari.
Áströlsku kylfingarnir Rod Pampling (69 höggum), Nick O'Hern (69) og Nathan Green (72) deildu þriðja sætinu á samtals 13 höggum undir pari.
Michael Cammpbell, sem sigraði á Opna bandaríska fyrr á þessu ári, lék lokahringinn á 74 höggum og hafnaði í 13. sæti á samtals 7 höggum undir pari.