Skotinn Colin Montgomerie bætti enn einni skrautfjöðrinni í hatt sinn með því að sigra á Opna Hong Kong mótinu sem lauk í dag. Þetta var 30. mótið sem hann vinnur á Evrópumótaröðinni. Monty var einu höggi á eftir Suður-Afríkumanninum James Kingston fyrir lokaholuna, en Kingston gerði mistök og kastaði nánast frá sér sigrinum í hendur Skotans.
Monty átti gott upphafshögg á 18. holu, sem er par-4, og kom sér inn á flöt í öðru höggi og átti ágæta möguleik á fugli, en varð að sætta sig við par og lék á 70 höggum og var þá samtals á 9 höggum undir pari. James Kingston var á 10 höggum undir pari þegar hann stóð á 18. teig og sigurinn virtist blasa við. Hann notaði 2-járn af teig og ætlaði að spila brautina af öryggi því hann vissi að par mundi duga til sigurs. En hann hitti ekki brautina og boltinn lenti alveg við tré. Hann þurfti að vippa boltanum stutt inn á brautina aftur í öðru höggi og þriðja höggið inn að flöt var of stutt. Fjóða höggið inn á flöt var hálf misheppnað og lenti boltinn um 6 metra frá holu. Hann missti síðan pútt fyrir skolla og varð a sætta sig við tvöfaldan skolla og annað sætið ásamt fjórum öðrum.
“Svona getur golfið verið miskunnarlaust. Ef mótið hefði verið 71 hola þá hefði Kingston unnið, en mistök hans voru dýr á lokaholunni. Það var hræðilegt fyrir hann að enda svona illa. Hann var líklega taugaóstyrkur á 18. teig og það varð honum að falli. 18. holan er mjög erfið og getur refsað manni illilega eins og dæmin sanna,” sagði Monty sem fékk 170 þúsund evrur í sigurlaun, eða sem samsvarar rúmlega 12 milljónum íslenskra króna. Þessi sigur færir hann inn á topp 10 á heimslistanum.
Þess má geta að það munaði líka aðeins einu höggi hjá James Kingston í fyrra að hann næði að fara í bráðabana við Spánverjann Jiménez, sem sigraði þá. Þannig að óheppnin virðist fylgja Kingston á þessu móti í Hong Kong.