Bandaríkjamaðurinn Michael Allen er með þriggja högga forystu þegar þremur hringjum af sex er lokið á úrtökumótinu fyrir PGA-mótaröðina í Orlando í Flórída. Hann lék þriðja hringinn á 71 höggi, eða einu höggi undir pari og er samtals á 13 höggum undir pari. Hann hefur verið með forystuna frá fyrsta hring, en 30 efstu öðlast þátttökurétt á PGA-mótaröðinni á næsta ári.
“Ég er enn með forystu, þó svo að hún hafi minnkað um þrjú högg frá í gær,” sagði Allen eftir að hafa sett niður fugl á lokaholunni á Crooked Cat vellinum. “Eins og ég hef sagt áður þá er enn mikið eftir, mótið er aðeins hálfnað, og það getur ýmislegt gerst. En auðvitað er gott að geta haldið forystunni fyrstu þrjá hringina.”
Allen er að taka þátt í úrtökumóti PGA-mótaraðarinnar í 12. sinn og hefur sjö sinnum náð að tryggja sér þátttökurétt á mótaröðinni.
Danny Ellis lék á 67 höggum og deilir öðru sæti með D.A. Points og John Holms, en þeir síðarnefndur léku báðir á 68 höggum og eru samtals á 10 höggum undir pari. Þjóðverjinn Alex Cejka og Joseph Alfieri, sem lék best allra í dag á 64 höggum, eru í fimmta sæti. Svíinn Mathias Gronberg lék á 67 höggum og er í sjöunda sæti ásamt nokkrum öðrum.
Norðmaðurinn Henrik Björnstad lék á 71 höggi og er í 11. sæti á samtals 7 höggum undir pari. Hann gæti orðið fyrsti Norðmaðurinn til að tryggja sér þátttökurétt á PGA-mótarðinni.
Þrír keppendur, sem hafa afrekað það að sigra á PGA-móti, hættu keppni eftir þriðja hringinn, en það voru þeir Tom Scherrer, Jim Carter og Joe Daley, sem allir voru meira en 8 höggum yfir pari og möguleikar þeirra því úr sögunni