Spennandi keppni er á Nedbank mótinu í Sun City í Suður-Afríku. Þrír deila efsta sæti fyrir lokahringinn, þeir Angel Cabrera frá Argentínu og Tim Clark frá Suður-Afríku og Ástralinn Adam Scott. Þeir eru allir á samtals 7 höggum undir pari. Aðstæður voru frekar erfiðar í dag vegna hvassviðris.
Cabrera, sem setti vallarmet í gær – 64 högg og var með forystu eftir annan hring, fékk þrefaldan skolla á 17. holu og lék hringinn á 74 höggum, eða tveimur höggum yfir pari. Clark lék hringinn á 67 höggum og Scott á 68 höggum. „Við erum þarna í einum hnapp og það getur allt gerst,“ sagði Scott.
Bandaríkjamaðurinn Jim Furyk og heimamaðurinn Retief Goosen, sem á titil að verja, eru einnig með í toppslagnum, aðeins einu höggi á eftir. Þá eru Darren Clarke og Luke Donald ekki langt undan, á samtals þremur höggum undir pari.
Ernie Els, sem er að leika á fyrsta móti sínu í tæpa fimm mánuði, lék á 73 höggum og er í 8. sæti ásamt Bandaríkjamanninum Chris DiMarco, á samtals einu höggi undir pari.