Ákveðið hefur verið að Opna breska meistaramótið árið 2009 fari fram á Turnberry-vellinum sem er í suðvestur-Skotlandi dagana 16.- 19. júlí. Þetta verður í fjórða sinn sem mótið er haldið á Turnberry síðan 1977, en þá sigraði Tom Watson með einu höggi eftir spennandi keppni við Jack Nicklaus. Þeir fengu þá báðir fugl á lokaholunni.
Greg Norman vann á Opna breska á Turnberry 1986 og lék þá annan hringinn á 63 höggum eftir að hafa leikið fyrsta hringinn á 74 höggum. Árið 1994 var það Nick Price sem sigraði á Turnberry eftir harða keppni við Jesper Parnevik.
“Það var aldrei spurning um hvort við færum með mótið á Turnberry, heldur aðeins hvenær. Turnberry er einn besti strandvöllurinn sem til er,” sagði David Hill, framkvæmdastjóri R&A, eftir að þessi ákvörðun lá fyrir í dag.
Mótið verður haldið á Hoylake-vellinum á næsta ár, Carnoustie–vellinum árið 2007 og á Royal Birkdale-vellinum árið 2008. Þá er fastlega gert ráð fyrir því að mótið 2010 verði á St. Andrews eins og á þessu ári.