Sigur Tiger Woods á Dunlop Phoenix mótinu í Japan á dögunum var 13. sigur hans á Opnu móti utan Bandaríkjanna. Hann hefur tekið þátt í samtals 35 mótum utan Bandaríkjanna á ferlinum, þar á meðal níu sinnum á Opna breska mótinu. Í 30 þessara móta hefur hann endað á meðal tíu efstu manna.
78 kylfingar á PGA-mótaröðinni þénuðu miljón Bandaríkjadali eða meira á tímabilinu og er það met. 30 þeirra unnu sér inn meira en tvær milljónir dala og hafa þeir aldrei verið fleiri.
Vijay Singh var sá kylfingur sem var oftast á meðal 10 efstu í PGA-mótum ársins, eða 18 sinnum (í 30 mótum) og Tiger Woods kom næstur, 13 sinnum (í 21 móti). Tiger var á meðal þriggja efstu í 12 af 21 móti, sem hann tók þátt.
D.A. Points átti lengsta einstaka teighöggið á mótaröðinni í ár. Hann sló 442 jarda (eða 404 metra) á Opna Buick mótinu.
Yngsti sigurvegarinn á PGA-mótaröðinni í ár var Sean O’Hair, sem vann John Deere mótið. Þá var hann 22 ára, 11 mánaða og 29 daga gamall. Elsti sigurvegarinn var hins vegar Fred Funk, sem vann Players meistaramótið. Hann var þá 48 ára, 9 mánaða og 14 daga gamall.
Chris DiMarco setti nýtt met, vann sér inn rúmlega 3,5 milljónir dala án þess að sigra í PGA-móti.