Japaninn Toru Taniquchi sigraði í Opna Casio mótinu sem lauk í Japan í gær. Hann lék lokahringinn á 69 höggum og vann þar með fyrsta sigur sinn á japönsku mótaröðinni í ár. Kim Jong Duck frá Suður-Kóreu varð annar, tveimur höggum á eftir Tanquchi. Bandaríska táningsstúlkan Michelle Wie tók þátt í mótinu, en komst ekki í gegnum niðurskurðinn eftir tvo hringi – munaði aðeins einu höggi.
Taniguchi, sem vann Opna japanska mótið í fyrra, fékk fimm fugla á hringnum í gær og þar af einn á lokaholunni. Hann lék hringina fjóra á samtals 277 höggum, eða 11 höggum undir pari. Þetta var fyrsti sigur hans síðan hann vann Opna Bridgestone mótið í fyrra.