Englendingurinn Ross Fisher, sem hefur aðeins leikið á 10 mótum á evrópsku mótaröðinni, er með eins höggs forystu fyrir lokahrninginn á Opna kínverska Volvo-mótinu. Hann lék þriðja hringinn í dag á 68 höggum og er samtals á 9 höggum undir pari. Englendingurinn Oliver Wilson og Chawalit Plaphol frá Taílandi eru jafnir í öðru sæti.
Wilson lék hringinn í dag á 71 höggi og Plaphol, sem var með forystu eftir tvo hringi, var á 74 höggum, eða tveimur yfir pari. Kínverjinn Lian-Wei Zhang lék best allra í dag, á 66 höggum, og er í fjórða sæti.
Fisher, sem er 25 ára frá Surrey, fékk fjóra fugla á síðustu sjö holunum. “Ég hef unnið nokkur mót á ferlinum, en það er þó ekkert sem jafnast á við þetta mót. Það er mjög ánægjulegt að sjá nafnið mitt efst á töflunni og nú get ég varla beðið eftir sunnudeginum,” sagði Fisher.
Paul Casey, sem talinn var sigurstranglegur fyrir mótið, lék á 70 höggum í dag, fékk skolla bæði á 16. og 17. holu, og er sex höggum á eftir Fisher. Meistarinn frá í fyrra, Stephen Dodd frá Wales, lék á 74 höggum og er samtals á pari og á varla von um sigur úr þessu.