Ástralinn Robert Allenby er með fimm högga forystu fyrir lokahringinn á Opna ástralska meistaramótinu sem fram fer í Melbourne. Hann varð fyrir meiðslum á handlegg er hann fór á salernið á hringnum og er óvíst hvort hann geti leikið lokahringinn. Hann lék hringinn í gær á 72 höggum eða pari og er samtals á 9 höggum undir pari.
Allenby sagði að þegar hann var inn á salerninu eftir 15. holuna hafi hann heyrt einhvern nálgast og þá teygði hann höndina aftur fyrir sig til þess að læsa hurðinni, en þá fann hann fyrir miklum sársauka, sem leiddi í gegnum handlegginn og upp í öxl.
“Þetta var óvenjulegur staður til að slasa sig á. Þetta var mjög sárt og ég finn enn til,” sagði hann eftir hringinn. “Ég get ekki fullyrt um það hvort ég geti leikið lokahringinn, en vonandi verður þetta í lagi,” sagði Allenby, sem fór strax í læknismeðferð eftir hringinn. Hann hefur einu sinni unnið Opna ástralskamótið, en það var árið 1994.
Landi hans, Paul Sheehan, lék á 72 höggum eins og Allenby og er í öðru sæti á samtals 4 höggum undir pari. Nick O'Hern, Aaron Baddeley og Rod Pampling deila þriðja sæti á 3 höggum undir pari.