Hin 16 ára gamla Michelle Wie lék fyrsta hringinn á Casio mótinu í Japan á 73 höggum, eða einu höggi yfir pari. Hún er í 42. – 55. sæti eftir fyrsta hring. Heimamennirnir Toshimitsu Izawa og Yoshiaki Kimura léku best, á 68 höggum eða 4 höggum undir pari.
Bandaríski táningurinn hóf leik á 10. teig og fékk skolla á þremur holum; 16., 2. og 3. holu og var þá komin þrjú högg yfir par. Hún fékk síðan fugl á 6. og 7. holu og náði þannig að laga stöðu sína.
Wie sagðist vera ánægð með hvernig hún náði að enda hringinn í gær, með því að leika síðustu fjórar holurnar á tveimur höggum undir pari. „Það gefur mér aukið sjálfstraust að hafa náð að enda hringinn svona vel. Það er þægilegt að vita að ég get þetta, jafnvel þó svo að ég sé ekki að leika mitt besta golf,“ sagði hún.
Michelle er aðeins önnur konan sem reynir fyrir sér á japönsku karlamótaröðinni, á eftir Sophie Gustafson frá Svíþjóð, sem keppti árið 2003 og komast þá ekki í gegnum niðurskurðinn. Þetta er í sjötta sinn sem Wie leikur í karlamóti og hefur hún aldrei náð að komast í gegnum niðurskurðinn.
Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því að Wie fengi um 90 milljónir króna frá Casio fyrirtækinu fyrir það eitt að leika í mótinu, en það er mun hærri upphæð en sigurvegari mótsins fær í sinn hlut. Áhorfendur voru fjölmargir og gær og var þá búið að selja um 45.000 aðgöngumiða.