Ólöf María Jónsdóttir úr GK lék ekki vel á fyrsta hring á lokastigi úrtökumótsins fyrir evrópsku mótaröðina á La Cala-golfsvæðinu á Costa del Sol á Spáni í dag. Hún spilaði á 80 höggum, eða 7 höggum yfir pari – sama skori og Ragnhildur Sigurðardóttir spilaði fyrsta hringinn á í undankeppni úrtökumótsins. Hún er sem stendur í 37.-42. sæti af þeim 48 sem hafa lokið leik í dag.
Ólöf María fékk aðeins einn fugl á hringnum í dag, 10 pör, 6 skolla og einn skramba. Alls eru 96 keppendur í mótinu og fá 30 efstu fullan þátttökurétt evrópsku mótaröðinni á næsta ári. Spilaðar eru 72 holur, en fjöldi keppenda er skorinn niður í 50, eftir 54 holur.
Janice Olivencia frá Puerto Ríkó er á besti skorinu það sem af er keppni í dag, lék á 70 höggum, eða 3 höggum undir pari. Þá lék Ellen Smets frá Belgíu á 72 höggum.