Annika Sörenstam frá Svíþjóð er í efsta sæti á lokamóti LPGA-mótaraðarinnar í golfi kvenna að loknum öðrum keppnisdegi en hún er með tveggja högga forskot á keppinauta sína. Sörenstam lenti í rimmu við Paulu Creamer á lokaholu fyrsta keppnisdagsins þar sem Creamer var ekki sátt við þá lausn sem Sörenstam fékk úr vatnstorfæru og rifust þær nokkuð heiftarlega yfir því atviki. Í gær var ekkert slíkt uppi á teningnum.
Sörenstam lék á 70 höggum í gær og fékk tvo erni (-2) á hringnum og er hún með tveggja högga forskot á Hee-Won Han frá S-Kóreu. Sörenstam sagði að hún væri allt annað en ánægð með framkomu Creamer á fyrsta keppnisdeginum.
Sörenstam sló upphafshögg sem fór í vatnstorfæru og fékk hún lausn með því að láta boltann falla í fallreit um 150 metra frá holu en Creamer taldi að boltinn hjá Sörenstam hefði aldrei farið út fyrir vatnstorfæruna áður en hann endaði í torfærunni og því hefði verið réttara að láta boltann falla á teignum þar sem að Sörenstam hafði slegið upphafshöggið. “Boltinn fór aldrei í sveig til hægri og inn í torfæruna,” sagði Creamer eftir hringinn. “Sörenstam verður að eiga það við sína samvisku hvort hún hafi gert rétt,” bætti Creamer við og gaf það í skyn að Sörenstam hefði haft rangt við.
“Ég er undrandi ef hún telur að ég hafi reynt að svindla, en hún hefur að sjálfsögðu rétt til þess að hafa skoðanir á hlutunum. Ég hafði aldrei áhrif á úrskurð dómarans og ég var aðeins að reyna að finna stað til þess að láta boltann falla eftir slakt högg,” sagði Sörenstam.
Cristie Kerr lék vel í gær eða á 66 höggum og er í þriðja sæti ásamt Michele Redman, en þær eru þremur höggum á eftir Sörenstam. Kerr tapaði í bráðabana fyrir Sörenstam fyrir ári síðan á þessu móti eftir að hafa fengið skramba á lokaholu mótsins og misst þar með af sigrinum.
Sörenstam sagði að hún ætlaði sér að gera upp málin við Creamer á hátíð sem fram fer í kvöld þar sem að Creamer fær afhenta viðurkenningu fyrir að vera nýliði ársins og Sörenstam fær viðurkenningu sem kylfingur ársins. “Það verður góður tími til þess að ræða málin og ná sáttum,” sagði Sörenstam.