Bandaríkjamaðurinn Jim Furyk lék best allra á Dunlop Phoenix mótinu í Japan í morgun og í efsta sæti, einu höggi á undan Tiger Woods og David Duval. Furyk lék hringinn á 64 höggum og er samtals á 9 höggum undir pari eftir tvo hringi. Tiger lék á 67 höggum í morgun og Duval á 68 höggum.
Furyk fékk sjö fugla á hringnum í morgun og aðeins einn skolla. „Þetta var mjög góður hringur,“ sagði hinn 35 ára gamli Furyk. „Nú hef ég komið mér í þá stöðu að ég get unnið mótið.“
Tiger fékk fimm fugla og tvo skolla, á 2. og 6. holu. „Ég átti þrjú mjög slæm teighögg sem kostuðu mig nokkur högg,“ sagði Tiger. „Ég þarf að laga nokkra hluti hjá mér fyrir næsta hring, en það er ekkert stórmál. Ég get vel verið sáttur við stöðuna,“ sagði Tiger.
Duval, sem var í efsta sæti heimslistans 1999, á góðar minningar frá Japan því þar vann hann sinn síðasta sigur, árið 2001. „Ég kann mjög vel við mig í Japan, ég er eins og heima hjá mér. Ég er sáttur við hringinn og finn að ég er að öðlast meira sjálfstraust en áður,“ sagði Duval.
Ný-Sjálendingurinn Michael Campbell lék á 68 höggum í morgun eftir að hafa leikið fyrsta hringinn á 72 höggum og samtals á 2 höggum undir pari.