Ragnhildur Sigurðardóttir, Íslandsmeistari úr GR, er úr leik á úrtökumótinu fyrir evrópsku mótaröðina á Spáni. Hún lék annan hringinn í dag á 84 höggum, eða 11 höggum yfir pari. Í gær lék hún á 80 höggum og var því samtals á 18 höggum yfir pari, en aðeins 44 af 118 keppendum komust áfram á 2. stig úrökumótsins sem hefst á morgun, en þar verður Ólöf María Jónsdóttir úr GK á meðal keppenda.

Þetta var í þriðja sinn sem Ragnhildur reynir við úrtökumótið og sagðist hún ekki vera viss um hvort hún myndi reyna þetta aftur því vonbrigðin væru mikil. “Ef ég geri þetta aftur, þarf ég líklega fyrst að fara til íþróttasálfræðings því þetta virðist vera í höfðinu á mér. Ég var að spila mjög vel á æfingahringjunum fyrir keppnina - var þá að leika völlinn á pari og þar í kring. Svo þegar kemur út í keppnina er ég að efast um eigin getu og allt fer á annan veg. Þetta er bara sorglegt og ég á erfitt með að trúa þessu,” sagði Ragnhildur í samtali við Kylfing.is og greinilegt að hún var ekki sátt.

Þegar þetta er skrifað er ekki ljóst í hvaða sæti hún endaði, en ljóst er að hún var langt frá því að komast áfram. Hún sagðist koma heim á morgun, þetta ævintýri væri búið í bili og best að gleyma því sem fyrst.