Tiger Woods er meðal keppenda í Dunlop Phoenix mótinu sem hefst í Japan á morgun, en hann sigraði í mótinu í fyrra með átta högga mun. Mótið hefur líklega aldrei verið sterkara, en þar leika einnig þeir Michael Campbell, Colin Montgomerie, Jim Furyk og Thomas Björn.
Tiger vonast eftir sigri nú eftir að hafa þurft að sætta sig við annað sætið í tveimur síðustu mótum sem hann hefur tekið þátt í; HSBC mótinu í Shangahi um síðustu helgi og Tour meistaramótinu, sem var lokamótið á PGA-mótaröðinni.
„Ég spilað mjög vel í þessu móti hér í Japan í fyrra, átti fjóra mjög góða hringi. Keppnin verður væntanlega harðari núna, enda margir góðir kylfingar með,“sagði Tiger Woods.
Ný-Sjálendingurinn Michael Campbell, sem sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu, leikur með Tiger fyrstu tvo hringina í Japan. „Það er alltaf gaman að leika með Tiger, sem slær betur en allir aðrir. En ég vann hann á Opna bandaríska og veit því að ég get gert það aftur á góðum degi“ sagði Campbell.