Kenny Perry og John Huston sigruðu í Franklin Templeton Shootout mótinu sem lauk á Tiburon-vellinum í Flórída í kvöld. Þeir léku lokahringinn á aðeins 59 höggum, eða 13 höggum undir pari, en leikfyrirkomulagið var betri bolti, þar sem betra skor telur á hverri holu. Þeir léku hringina þrjá á samtals 30 höggum undir pari og fengu hvor um sig 315 þúsund Bandaríkjadali í verðlaun.
Fred Couples og Adam Scott, sem voru með forystu fyrir lokahringinn, náðu ekki að halda í við Perry og Huston og urðu að sætta sig við annað sætið, léku lokahringinn á 63 höggum og því samtals á 29 höggum undir pari. Mark O’Meara og Nick Price léku á 60 höggum í dag og höfnuðu í þriðja sæti á samtals 27 höggum undir pari.
Greg Norman, sem var gestgjafi þessa móts, lék með Steve Elkington og spiluðu þeir best allra í dag- á 55 höggum, eða 17 höggum undir pari. Þeir fengu fugl á allar holurnar nema tvær og síðan örn á 17. holu. Þeir enduðu í fimmta sæti.
Leikfyrirkomulagið var Scramble þar sem að kylfingar í sama liði nota tvo bolta og slá tvívegis frá hverjum stað og velja ávallt betri boltann.