Liselotte Neumann frá Svíþjóð er með eins höggs forystu eftir fyrsta hring á næsta síðasta mótinu á bandarísku LPGA-mótaröðinni, Michelll-mótið, sem hófst á Magnolia Grove í Mobile í Alabama í gær. Hún lék hringinn á 66 höggum, eða 6 höggum undir pari. Neumann fékk sex fugla á hringum og þar af fjóra á seinni níu. Juli Inkster og Christina Kim, báðar frá Bandaríkjunum, deila öðru sæti. Besta golfkona heims, Annika Sörenstam, tekur ekki þátt í mótinu.
„Þetta var bara mjög góður hringur. Ég var að slá vel með járnunum og pútin voru að detta, það gerði gæfumuninn,“ sagði Neumann, sem er 39 ára og hefur besta náð fjórða sæti á mótaröðinni í ár. Hún sigraði á Asahi Ryokuken mótinu í fyrra, en það var fyrsti sigur hennar síðan 1998.
Laura Diaz frá Bandaríkjunum, sem er ólétt og komin sjö mánuði á leið, lék hringinn í gær á 75 höggum, eða 3 höggum yfir pari.
Það var yfirleitt gott skor á fyrsta hring þar sem 24 stúlkur léku á betra skori en pari. Ástæðan er líklega sú að vegna bleytu á vellinum mátti taka upp boltann og hreinsa.
Heimildir kylfingur.is