Englendingarnir Nick Dougherty og David Howell deila efsta sæti þegar HSBC meistaramótið í Kína er hálfnað. Þeir hafa leikið á samtals 12 höggum undir pari og eru með tveggja högga forskot á Tiger Woods og Ástralann Nick O’Hern. Kenneth Ferrie gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi.
Dougherty lék á 68 höggum í gær, eða fjórum höggum undir pari eftir að hafa leikið fyrsta hringinn á 64 höggum. Howell lék á 67 höggum í gær. Tiger lék á 69 höggum og er samtals á 10 höggum undir pari. O’Hern lék á 67 höggum í gær, en hann hefur aldrei sigrað á evrópsku mótaröðinni.
Tiger Woods setti niður fjóra fugla á hringnum, en var ekki alveg sáttur við stutta spilið. Hann fékk skolla á 16. holu og bjargaði pari með ótrúlegu pútti á 18. holu, eftir að hafa sett boltann í vatn í öðru höggi.
Englendingurinn Kenneth Ferrie náði draumahögginu á sjöttu braut, er hann fór holu í höggi. Hann notaði 4-járn á braut sem er 180 metrar. Hann var lengi með forystu á hringnum í gær, en fékk skolla á 17. og 18. holu sem þýddi 69 högg og fimmta sætið. „Ég náði mjög góðu höggi á sjöttu holu, en að fara holu í höggi er alltaf heppni,“sagði Ferrie.
Paul Casey frá Englandi, Robert-Jan Derksen, Hollandi, Kenneth Ferrie, Thawom Wiratchant frá Taílandi og Kínverjinn Zhang Lianwei hafa allir leikið á samtals 9 höggum undir pari og deila fimmta sæti.
Vijay Singh lék á 69 höggum, Michael Campbell á 70 höggum og eru þeir samtals á 6 höggum undir pari ásamt Thomasi Björn og Ian Poulter.
Heimildir kylfingur.is