Ragnhildur Sigurðardóttir, Íslandsmeistari úr GR, heldur til Spánar á morgun þar sem hún tekur þátt í úrtökumótinu fyrir evrópsku mótaröðina. Keppnin hefst á miðvikudaginn í næstu viku á La Cala golfsvæðinu sem er skammt frá Colsta del Sol. Ólöf María Jónsdóttir úr GK tekur einnig þátt í mótinu og kemur til Spánar beint frá Bandaríkjunum þar sem hún hefur verið við æfingar að undanförnu.
Þetta er í fyrsta skipti sem úrtökumót fyrir evróputúrinn er haldið á Costa del Sol og hafa forsvarsmenn La Cala lýst yfir ánægju sinni að fá að halda kvennamót af þessari stærðargráðu þar sem kvennagolf er í mikilli sókn á Spáni. 165 konur eru skráðar í úrtökumótið þetta árið og hafa þátttakendur aldrei verið fleiri. 119 kylfingar fara í sérstaka undankeppni sem hefst 16. nóvember og verða leiknir tveir hringir. 44 efstu eftir undankeppnina komast í lokakeppni úrtökumótsins þar sem þær mæta 46 kylfingum til viðbótar, sem ekki þurfa að fara í undankeppnina og Ólöf María ein þeirra.
Leikfyrirkomulagið í úrtökumótinu er þannig að leikin er 36 holu undankeppni 16. og 17. nóvember. 90 konur öðlast þátttökurétt á stigi tvö, þar af eru 46 keppendur sem fyrirfram höfðu öðlast keppnisrétt á stigi tvö og þurfa því ekki að taka þátt í undankeppninni.
Á stigi tvö eru spilaðar 72 holur en fjöldi keppenda er skorinn niður í 50, eftir 54 holur, efstu 30 leikmennirnir eftir 4. daginn (72 holur) fá svo fullan aðgang inn á Evróputúrinn árið 2006.
Ragnhildur hefur opnað heimasíðu: http://www.raggasig.net/ þar hefur hún skrifað grein um úrtökumótið og lýsir völlunum sem spilað er á. Þar segir að La Cala sé eini golf-dvalarstaðurinn á Costa del Sol sem getur státað af þremur 18 holu völlum. Á La Cala er einnig að finna spænskar höfuðstöðvar David Leadbetter golf-akademíunnar.
Úrtökumótið fer fram á Norðurvellinum á La Cala sem er par 73, 5513m. Leikur á þeim velli gerir kröfur til kylfinganna sérstaklega hvað varðar staðsetningar og leikskipulag sem og færni í stutta spilinu, enda eru að finna á vellinum 105 sandgryfjur. Hinir tveir vellirnir eru Suður-völlurinn, par 72 (opnaður 1991) og Campo Europa, par 71 (opnaði í mars 2005). Allir vellirnir eru hannaðir af Cabell Robinson golfvallararkitekt sem vann áður hjá Robert Trent Jones