Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG lék annan hringinn á lokastigi úrtökumótsins fyrir evrópsku mótaröðina á San Roque vellinum á Spáni í dag á 75 höggum, eða 3 höggum yfir pari. Hann lék fyrsta hringinn í gær á 74 höggum og er því samtals á 5 höggum yfir pari. Hann er í 82. - 98. sæti þegar þetta er skrifað og áttu þá margir keppendur eftir að ljúka leik.
Birgir Leifur hóf leik á 10. teig í dag og lék á nýrri vellinum á San Roque-svæðinu - llék fyrri níu holurnar á tveimur yfir pari og seinni á einu höggi yfir pari eftir að hafa fengið skolla á lokaholuna.
Hann þarf að leika betur næstu tvo daga ætli hann sér að komast í gegnum niðurskurðinn eftir fjórða hring, en þá verður keppendum fækkað niður í 75 og leika þeir síðan tvo hringi til viðbótar og þá ræðst hvaða 30 kylfingar fá þátttökurétt á evrópsku mótaröðinni.
Englendingurinn Tom Whitehouse er á besta skorinu eftir tvo hringi, á samtals 8 höggum undir pari. Landi hans, Robert Rock er næstur á 6 höggum undir pari og Frakkinn Benoit Teilleria á 5 höggum undir pari.
Hemildir kylfingur.is